Góður grunnur er mikilvægur
„í þessum áfanga sjáum við oft mjög miklar framfarir á ótrúlega stuttum tíma. Við reynum að auka færni krakkanna í því að teikna fríhendis og um leið fá þau aukið sjálfstraust í teikningunni en það er einmitt það sem oft skortir töluvert,“ segir Hallgrímur Ingólfsson, kennari í áfanganum Sjónlist 103 á listnámsbraut, sem er grunnáfangi í fríhendis teikningu.
Sem fyrr er mjög góð aðsókn á listnámsbraut og má segja að hún sé fullbókuð. Allir nýnemar taka Sjónlist 103 og segir Hallgrímur að áfanginn sé nauðsynlegur grunnur að því sem koma skal þegar lengra er komið í náminu.
„Grunnurinn í að ná tökum á fríhendis teikningu er að nota augun og sjá hlutina fyrir sér. Eins og í mörgu öðru er hægt að öðlast þjálfun og færni í þessu. Nemendur fá einnig að kynnast teikniáhöldunum í þessum áfanga,“ segir Hallgrímur.
Í áfangalýsingunni kemur m.a. fram að lögð sé áhersla á að þjálfa formskyn, skoða rými og umhverfi og að teikna mannslíkamann. Einnig að nemendur geti teiknað einfalda hluti þannig að þeir sýnist réttir í rýminu.
Hér má sjá nokkrar myndir úr kennslustund í Sjónlist 103.