Góður grunnur fyrir alla sköpun
Stuttmynd sem byggir á smásögunni Landlady eftir Roald Dahl er viðfangsefni Þorbergs Erlendssonar í lokaverkefni hans á listnáms- og hönnunarbraut skólans en hann lýkur námi af myndlistarkjörsviði í vor. Á sínum tíma innritaðist Þorbergur í grunndeild málmiðnaðar en segist ekki hafa fundið sig þar og ákveðið að prófa listnámið. Þar hafi hann fundið sína fjöl og fljótlega beindist hugurinn í átt að grafískri hönnun. Síðan segir hann að áhuginn á kvikmyndagerð hafi tekið yfir og sem stendur segist hann stefna á kvikmyndanám, Bandaríkin séu þar ofarlega á blað.
Nú þegar hefur Þorbergur unnið þrjú tónlistarmyndbönd við rapplög. Þar á meðal er þetta myndband þar sem MCMG flytur lagið Allright. Söngurinn er í höndum Gumma sem er einmitt í kokkanámi núna á vorönn í VMA.
Splunkunýtt myndband sem Þorbergur vann er við lag hljómsveitarinnar Gringlo, “Light of New Day”. Tónlistin er eftir Ivan Mendez. “Við Ivan þekktumst ekkert. Hann hafði séð eitthvað af myndböndunum sem ég hafði áður unnið og spurði mig hvort ég væri til í að vinna myndband við þetta nýja lag. Við fórum síðan í upptökur síðastliðið haust og það er virkilega gaman að sjá útkomuna,” segir Þorbergur. Hér eru frekari upplýsingar um Gringlo.
Akrílmynd eftir Þorberg Erlendsson er nú til sýnis á vegg gegnt austurinngangi skólans. Hún skírskotar til hafsins og það þarf ekki að koma á óvart því leyndardómar undirdjúpanna eru ofarlega í huga Þorbergs. Sjálfur er hann með fyrsta stigs próf í köfun, sem veitir honum réttindi til þess að kafa niður á allt að 18 metra dýpi. Áhugi á köfun og hafinu er í blóðinu en faðir hans, Erlendur Guðmundsson, er atvinnukafari.
Þorbergur segir að myndlistin muni án nokkurs vafa koma að góðum notum í kvikmyndanámi hans, þegar þar að kemur. "Myndlistin er góður grunnur fyrir alla sköpun," segir hann.