Góður grunnur úr textílnáminu í VMA
Þegar Tekla Sól Ingibjartsdóttir útskrifaðist af textílsviði listnáms- og hönnunarbrautar VMA í desember 2015 var hún ekki með það í huga að leggja fatahönnun fyrir sig. Fór þess í stað í listfræði í Listaháskólanum en lauk því námi ekki og færði sig yfir í fatahönnun í sama skóla og brautskráðist með BA-próf fyrir þremur árum. Og ef allt gengur upp er næsta skref meistaranám í fatahönnun í Borås í Svíþjóð – í einum af virtustu hönnunarskólum á þessu sviði í heiminum. Aðeins átta nemendur eru teknir inn í þetta nám í skólanum á hverju ári og því eru kröfurnar miklar. Raunar komst Tekla inn í þennan skóla í fyrra en hafði ekki tök á að fara þá en sótti um aftur í ár - og væntir svars um skólavist í dag.
Tekla Sól dregur ekki dul á að námið á textílsviði listnáms- og hönnunarbrautar VMA hafi verið sér mikilvægur og góður grunnur fyrir framhaldið. Og raunar er það svo að fjölmargir nemendur með þetta nám í bakpokanum hafa haldið áfram námi í t.d. fatahönnun – m.a. í Bretlandi - .t.d. London og Bournemouth.
„Frá því ég kláraði BA-námið í Listaháskólanum hef ég starfað sjálfstætt í fatahönnun undir mínu eigin nafni og einnig hef ég unnið í hlutastarfi í fatabúð. Það má segja að ég hanni mest út frá hugmyndalegri vinnu og útkoman er kvenfatnaður af ýmsum toga. Þetta er það sem ég vil gera og leggja fyrir mig í framtíðinni. Í BA-náminu í Listaháskólanum þróaðist stíllinn smám saman sem síðan endaði með ákveðinni formúlu. Í ferlinu getur ýmislegt gerst, vinnan hefst með orði á blaði og lokaútkoman verður oft mjög frábrugðin upphaflegu hugmyndinni. Hönnunarheimurinn getur verið harður og maður þarf að hafa trú á og standa með sjálfum mér,“ segir Tekla Sól Ingibjartsdóttir.