Góður stuðningur Tengis og Danfoss við nám í pípulögnum
Það er ávallt fagnaðarefni þegar atvinnulífið leggur náminu í VMA lið á einn eða annan hátt.
Á dögunum færðu tvö fyrirtæki sem tengjast pípulagnageiranum byggingadeild góðar gjafir sem nýtast vel í kennslu nemenda í pípulögnum.
Eins og fram hefur komið hóf nýr hópur um áramót nám í pípulögnum og eru í honum fjórtán nemendur. Hinrik Þórðarson, pípulagnameistari á Akureyri, heldur utan um námið.
Tengi ehf. – innflutnings- og sölufyrirtæki í hreinlætistækjum og pípulagnaefnum, sem er með starfsstöðvar í Kópavogi og á Akureyri, færði byggingadeildinni að gjöf annars vegar pressuvél og hins vegar röraútvíkkara.
Danfoss í Reykjavík gaf byggingadeildinni hitunarbúnað – þ.m.t. varmaskipti, fittings o.fl.
Þessi tæki og búnaður nýtist sannarlega mjög vel í námi verðandi pípulagningamanna og vill VMA þakka forsvarsmönnum beggja fyrirtækja fyrir góðar gjafir.
Hér eru tíu af fjórtán pípulagnanemum með Hinriki kennara og einnig má sjá umrædd tæki og búnað.