Stökk út í djúpu laugina
Öflugt félagslíf hefur vitaskuld afar mikilvægu hlutverki að gegna í skólalífinu og þar reynir ekki síst mikið á framvarðasveitina í nemendafélaginu Þórdunu. Þar stendur í stafni formaðurinn Martyna Kulesza. Hún segist fara full tilhlökkunar inn í þetta skólaár. Fyrir ári síðan hafi þó ekki verið efst á baugi hjá sér að hella sér af krafti í félagslífið í VMA en tilviljun ein hafi ráðið því að sl. vor hafi hún verið orðin formaður Þórdunu. Það verði án efa mikil áskorun en fyrst og fremst skemmtileg áskorun.
Martyna stundar nám á listnáms- og hönnarbraut VMA og stefnir á stúdentspróf af þeirri braut næsta vor. Þegar hún kom í skólann haustið 2021 hafði hún í hyggju að verða bakari og því fór hún í grunndeild matvælagreina og lauk henni vorið 2022. Tók síðan u-beygju og innritaðist þá um haustið á listnáms- og hönnunarbraut. Og sem fyrr segir stefnir Martyna á að ljúka stúdentsprófi næsta vor en hún útilokar ekki að draumurinn um bakarann eigi síðar eftir að verða að veruleika. „Þetta fer í rauninni ágætlega saman því ég hef áhuga á bæði listum og mat og öllu því sem er matartengt, því í rauninni er matur list,“ segir Martyna og bætir við að upphaflega hafi hún farið á matvælabrautina með það í huga að búa sig undir nám í bakaraiðn. En hún hafi líka lært heilmargt gagnlegt í matreiðslu og framreiðslu sem hafi nýst vel, t.d. hafi hún starfað sem þjónn á Bautanum.
Martyna hefur ekki áður starfað í stjórn Þórdunu en hún segist engu kvíða, oft sé bara gott að stökkva út í djúpu laugina og takast á við stórar áskoranir. „Við í nemendaráðinu erum nú þegar búin að hittast á nokkrum fundum og mér list bara mjög vel á veturinn með öflugu og skemmtilegu fólki. Við erum byrjuð að leggja línur fyrir veturinn en til að byrja með verður áhersla okkar á nýnemadagana í næstu viku og nýnemaballið sem verður í Sjallanum fimmtudagskvöldið 5. september,“ segir Martyna, nýr formaður nemendafélagsins Þórdunu.