Gott samstarf VMA við atvinnulífið um vinnustaðanám
Vinnustaðanám er mikilvægur þáttur á mörgum námsbrautum í VMA og þá er lykilatriði að samstarf skólans við atvinnulífið sé gott. Skólastjórnendur í VMA eru almennt mjög ánægðir með þá jákvæðni sem einkenni samskipti skólans og atvinnulífsins og almennt taki fyrirtæki því mjög vel að nemendur bæði heimsæki fyrirtæki og stofnanir og taki þar hluta af námi sínu.
Ein af þeim brautum skólans þar sem nemendur heimsækja vinnustaði og kynna sér starfsemi þeirra er grunnnám matvæla- og ferðagreina. Þessa dagana eru nemendur einmitt að velja hvaða vinnustaði þeir hafa áhuga á að kynna sér, hvort sem er í veitinga- eða hótelgeiranum, kjötiðn eða bakstri. Í framhaldi af því að nemendur velja sér sitt áhugasvið er haft samband við viðkomandi fyrirtæki og segir Marína Sigurgeirsdóttir, brautarstjóri matvælabrautar, að full ástæða sé til að þakka þann einstaka velvilja sem brautin finni þegar leitað sé til atvinnulífsins með að koma nemendum í vinnustaðanám.
Önnur námsbraut í VMA þar sem starfsnámið vegur þungt er sjúkraliðabrautin. Nemendur ljúka níu einingum í starfsþjálfun eftir fjórðu önn og átján einingum eftir sjöttu og síðustu önn námsins. Starfsþjálfun sjúkraliðanema er afar fjölbreytt. Sem dæmi eru þeir í starfsþjálfun á sjúkrastofnunum og öldrunarstofnunum hér innanlands og einnig hafa nemendur í VMA oft farið í vinnustaðanám út fyrir landsteinana, t.d. til Finnlands og Danmerkur. Þessa dagana eru einmitt sjúkraliðanemar úr VMA í vinnustaðanámi í Randers í Danmörku.