Grímurnar og sprittbrúsarnir á sínum stað
20.08.2021
Við lok vorannar 2021 voru vonir bundnar við að skólahaldið yrði með hefðbundnum hætti, án sóttvarnatakmarkana, núna við upphaf haustannar. En svo bregðast krosstré sem önnur tré. Gríman er enn og aftur staðalbúnaður í skólanum og sprittbrúsarnir eru ekki langt undan.
Starfsmenn og nemendur eru orðnir ýmsu vanir hvað sóttvarnir varðar og byggja á þeirri þekkingu og reynslu sem hefur safnast í sarpinn. Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari VMA metur það svo að skólahaldið fari ágætlega af stað, þrátt fyrir þær takmarkanir sem í gildi eru, enda ekki í mannlegu valdi að hafa stjórn á veirunni. Bitið er á jaxlinn og veirunni bölvað í hljóði en lífið heldur áfram og starfsmenn og nemendur brosa á bak við grímuna mót nýju skólaári.