Gleðin við völd í Grís
Það verður ekki annað sagt en að söngleikurinn Grís hafi fengið fljúgandi start um helgina. Verkið var frumsýnt á fjölum Gryfjunnar í VMA sl. föstudagskvöld og önnur sýning var síðan sl. laugardagskvöld. Uppselt var á báðar sýningarnar og fékk sýningin mikið lof gesta. Heiðursgestur á frumsýningunni var Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.
Hilmar Friðjónsson var með myndavélina á frumsýningunni sl. föstudagskvöld.
Myndaalbúm 1
Myndaalbúm 2
Myndaalbúm 3
Og hér eru myndir sem Hilmar tók að lokinni sýningu.
Allt getur gerst í leikhúsinu og því fékk leikhópurinn að kynnast sl. laugardagskvöld. Við upphaf sýningarinnar virkaði ljósaborðið ekki. Við nánari eftirgrennslan kom í ljós bilun sem ekki reyndist unnt að laga fyrir sýninguna og því var hún keyrð á varaafli, ef svo má að orði komast. Embla Björk Hróadóttir, önnur tveggja formanna Leikfélags VMA, segir að slíkt geti alltaf gerst en sem betur fer hafi þetta ekki slegið leikhópinn út af laginu og sýnt hafi verið eins og lagt var upp með, enda fullur salur af fólki, þó svo að lýsingin hafi ekki verið eins og hún átti að vera. En endurnýjað ljósaborð verður komið á sinn stað fyrir næstu sýningar á Grís um næstu helgi.
Vilhjálmur Bragason bauð Maríu Björk Jónsdóttur, sem er önnur tveggja formanna Leikfélags VMA, og Pétri Guðjónssyni leikstjóra í viðtal í Föstudagsþáttinn á N4 sl. föstudagskvöld. Að loknu spjalli þeirra þriggja var sýnt söng- og dansatriði úr sýningunni. Hér er innslagið á N4. Það tók upp og vann Myndbandaklúbbur VMA.
Næstu sýningar á Grís verða um næstu helgi; föstudagskvöldið 26. febrúar og laugardagskvöldið 27. febrúar kl. 20:00 bæði kvöldin. Uppselt er á báðar þær sýningar. Fjölskyldusýning verður sunnudaginn 28. febrúar kl. 17 og eru enn örfáir miðar til á hana.
Ákveðið hefur verið að bæta við sýningum um aðra helgi, 5. og 6. mars, kl. 20:00 báða dagana.
Hægt er að panta miða með því annað hvort að hringja í síma 7934535 milli kl. 16 og 19 virka daga eða senda tölvupóst á netfangið midasala@thorduna.is. Miðana fá sýningargestir afhenta við innganginn og greiða þar fyrir þá – hvort sem er með kortum eða peningum. Miðinn kostar 3.900 fyrir fullorðna en 3.400 kr. fyrir börn f. 2005 og yngri.