Fara í efni

Grunnskólakrakkar kynntu sér VMA

Helga Jónasdóttir aðstoðarskólameistari fylgdi þessum hópi grunnskólanema um húsakynni VMA.
Helga Jónasdóttir aðstoðarskólameistari fylgdi þessum hópi grunnskólanema um húsakynni VMA.

Það hefur verið heldur betur gestkvæmt í VMA síðustu tvo daga. Ástæðan er einföld: Árleg grunnskólakynning.

Grunnskólanemar, flestir í 10. bekk, af öllu Norðurlandi fjölmenntu í VMA í gær og fyrradag til þess að fá innsýn í skólastarfið. Til að byrja með fræddu námsráðgjafar skólans nemendur um námsframboð í skólanum og fleira gagnlegt um skólastarfið. Einnig kynnti stjórnarfólk í Þórdunu félagslífið í skólanum. Síðan gengu nemendur um skólann og fengu kynningar á hverri námsbraut frá bæði nemendum og kennurum brautanna.

Síðastliðinn miðvikudag komu í skólann nemendur úr Naustaskóla á Akureyri og grunnskólum utan Akureyrar - frá Þórshöfn í austri til Húnabyggðar í vestri. Í gær fjölmenntu nemendur úr öðrum grunnskólum Akureyrar að Lundarskóla frátöldum en skólastarf liggur þar niðri vegna verkfalls kennara. Í það heila sóttu VMA heim að þessu sinni vel á fjórða hundrað nemendur.

Grunnskólakynningarnar eru alltaf einstaklega ánægjulegar og er öllum nemendum og starfsfólki grunnskólanna sem komu með krökkunum í VMA þakkað kærlega fyrir komuna.

Á þessum myndum, sem voru teknar í gær, eru krakkar úr grunnskólum Akureyrar.