Grunnskólanemendur í rafmagninu
Nemendum í 9. og 10. bekk grunnskóla á Akureyri standa til boða valgreinar af ýmsum toga – nefna má tómstundagreinar, líkamsrækt og fjölmargt annað, þar á meðal iðngreinakynningar. Á þessari önn sækja tveir hópar grunnskólanema námskeið í rafiðnaðardeild VMA – samtals á þriðja tug nemenda. Hvor hópur sækir námskeiðið einu sinni í viku til vors. Tveir kennarar í rafiðngreinum kenna námskeiðið – Karl Hjartarson er með annan hópinn og Bjarnhéðinn Jónsson með hinn.
Þegar litið var inn í kennslustund í vikunni hjá Karli var hann að kenna grunnskólanemum að lóða og mæla viðnám. Farið er í ýmis grunnatriði í rafiðngreinum, ekki ósvipað og grunndeildarnemendur byrja á að fara í þegar þeir hefja nám í rafvirkjun/rafeindavirkjun í VMA. Markmiðið er að varpa eilítið ljósi á töfraheim rafmagnsins á fróðlegan, lifandi og skemmtilegan hátt og vekja þannig áhuga grunnskólakrakkanna á þessu fagi.
Það mátti heyra á nemendum að þeim finnst áhugavert að fá sýn á ýmsa hliðar rafmagnsins, sumir sögðust einfaldlega hafa valið þetta námskeið vegna þess að þeir hefðu áhuga á að fara í grunndeild rafiðngreina í VMA og vildu kynnast náminu með þessum hætti. Aðrir nemendur sögðust hafa valið námskeiðið af áhuga og forvitni, þeir væru ekki ráðnir í því hvaða námsleið yrði fyrir valinu en kjörið væri að kynnast einhverju alveg nýju með þessum hætti.