Grunnteikningin mikilvægur grunnur
Nemendur í grunnnámi á bæði bygginga- og málmiðnbraut læra grunnteikningu, enda mun alltaf, þegar út á vinnumarkaðinn er komið, reyna á kunnáttu þeirra í að lesa út úr teikningum og smíða eftir þeim. Grunnteikningin er því afar mikilvægt fag og áfangarnir eru tveir – grunnteikning 1 og 2.
Í þessum áföngum er fjallað um, eins og segir í brautarlýsingu: Almenn undirstöðuþekking og þjálfun í teiknifræðum. Fjallað er um fallmyndun, ásmyndun og fríhendisteikningu. Nemandinn öðlist færni í meðferð og notkun mæli- og teikniáhalda, myndrænni vinnu með viðfangsefni starfsgreina. Að auki hlýtur nemandinn grunnþjálfun í gerð vinnuteikninga og þrívíðra rissteikninga ásamt lestri teikninga.
Grunnteikningin er bæði kennd sem fríhendis teikning á teikniborðum og einnig er hún kennd í tölvum og er þá unnið í forritinu AutoCad.
Þessar myndir voru teknar í gær í kennslustund í grunnteikningu hjá Jóhanni Kristjánssyni kennara.