Grunnurinn skiptir öllu máli
Nýr skóli, nýjar áskoranir. Þannig er mörgum nýnemanum innanbrjóts þegar hann fetar nýja og áður óþekkta slóð í VMA. Fjölmargt nýtt og þó ekki væri nema að rata um hús VMA er það heilmikil áskorun.
Það er alltaf gaman að upplifa eftirvæntingu og gleði nýnemanna á þessum fyrstu dögum skólans og þessi vika er einmitt helguð þeim að töluverðu leyti því í dag og á morgun eru nýnemaferðir þar sem nýnemar og starfsfólk skólans gera sér glaðan dag. Á fimmtudaginn verður síðan blásið til nýnemahátíðar í skólanum í umsjón nemendafélagasins Þórdunu og deginum lýkur síðan með nýnemaballi í Sjallanum. Ballið í fyrra var glæsilegt og tókst mjög vel og Þórdunufólk lofar að ballið í ár verði enn stærra og veglegra.
Í þessari fyrstu heilu kennsluviku í VMA hafa nýnemar fengið innsýn í námsefni ólíkra áfanga. Þegar litið var inn í kennslustund á fyrstu önn á listnáms- og hönnunarbraut var Hallgrímur Ingólfsson að kenna nemendum grunnatriðin í teikningu. Hallgrímur segist alltaf fara rólega af stað og hann gefi sér góðan tíma til þess að kynnast nemendum.
Hallgrímur hefur lengi kennt þennan grunnteikniáfanga á listnáms- og hönnunarbraut og segist alltaf njóta þess jafn mikið. Eins og með annað sé þessi grunnur afar mikilvægur til þess að byggja ofan á í framhaldinu.
Í áfangalýsingu segir um þennan áfanga: Í áfanganum lærir nemandinn grunnatriði í teikningu. Hann þjálfar sig í að yfirfæra þrívíða fyrirmynd í tvívíða teikningu og jafnvel þrívíða. Nemandinn þjálfar eigin formskilning með því að teikna einföld form eins og kassa, kúlu og sívalning og skoða hvernig aðrar fyrirmyndir eru byggðar úr þeim. Hann teiknar rýmið í kringum sig, innanhúss og utan og lærir um leið forsendur eins og tveggja punkta fjarvíddar og fleiri leiðir til að skapa dýpt. Nemandinn teiknar mannslíkamann og kynnist hlutföllum hans, jafnvægi og hreyfingu. Hann þjálfar sig í að beita ímyndunaraflinu í teikningu. Hann kynnist ólíkum möguleikum teikningar í listum, vísindum og hönnun í nútíma og sögu. Nemandinn notar ólíkar teikniaðferðir og beitir margskonar teikniáhöldum.
Sem fyrr er listnáms- og hönnunarbraut skólans vel sótt og eru nú á þriðja tug nýnema á brautinni, sem er ekki ólíkt undanförnum árum. Að grunnnáminu loknu velja nemendur um að fara á myndlistar- eða textíllínu
.