Fara í efni

Guli dagurinn er í dag

Á heimsvísu er talið að árlega falli ríflega 7- 800 þúsund manns fyrir eigin hendi. Hér á landi sýnir tölfræðin að 40-50 manns taka líf sitt á ári hverju. Liður í því að vekja athygli á þeim alvarlega vágesti sem sjálfsvíg eru er nú gulur september og Guli dagurinn, alþjóðlegur forvarnadagur sjálfsvíga, er í dag, 10. september. Þessa dags er minnst hér í VMA með því að starfsfólk og nemendur klæðast gulu í dag og sýna þannig stuðning sinn í verki.

Gulur september er samvinnuverkefni stofnana og félagasamtaka sem vinna saman að geðheilbrigði og sjálfsvígsforvörnum.Tilgangurinn er að auka meðvitund samfélagsins um mikilvægi geðræktar og sjálfsvígsforvarna og að fólk hafi að leiðarljósi kærleika, aðgát og umhyggju. Haustið er valið fyrir þetta átak vegna þess að alþjóðlegur forvarnadagur sjálfsvíga er í dag og Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn er 10. október nk.

Í ár er lögð áhersla á slagorðin; „Er allt í gulu?“, ,,Er allt í gulu á þínum vinnustað?“ og „Er allt í gulu í þínum skóla?“ Áherslur alþjóða geðheilbrigðisdagsins 2024  er á geðheilbrigði á vinnustaðnum, annars vegar á það sem við getum sjálf gert til að viðhalda góðri líðan og hins vegar á ábyrgð stjórnenda til þess að huga að vellíðan sinna starfsmanna.

Í grein sem Alma Möller landlæknir skrifaði fyrir þremur árum um sjálfsvíg segir hún m.a.:

Missir ástvinar í sjálfsvígi er harmleikur fyrir þá sem næst standa. Auk þeirra er fjöldi fólks sem er verulega slegið en talið er að í kringum hvert sjálfsvíg séu allt að 100 manns sem hlúa þarf að. Í kjölfar sjálfsvígs þarf að takast á við flókna sorg og erfiðar tilfinningar eins og sektarkennd, skömm og reiði. Til þess að komast í gegnum áfallið og sorgina þarf bæði stuðning nærumhverfis, ættingja og vina en einnig hjálp frá fagfólki.

Og áfram skrifar Alma:

Hér á landi er unnið markvisst samkvæmt aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum. Áætlunin telur yfir 50 aðgerðir í sex liðum og nær bæði til almennra samfélagslegra aðgerða eins og geðræktar og áfengis- og vímuefnaforvarna, en einnig til sértækra aðgerða sem beinast að áhættuhópum og takmörkunar aðgengis að hættulegum efnum og aðstæðum.

-----

Ástæða er til að undirstrika að það eru alltaf hjálpráð fyrir þá sem líður illa og glíma við sjálfsvígshugsanir. Félagasamtök á borð við Pieta og Geðhjálp veita mikilvægan stuðning og er hjálparsími Pieta, s. 552-2218 alltaf opinn, sömuleiðis Hjálparsími Rauða krossins 1717 og netspjallið 1717.is. Sorgarmiðstöð, s. 551 4141 sinnir stuðningi við aðstandendur og Heilsugæslan getur jafnframt veitt aðstoð. Þá er hægt að finna gagnlegar upplýsingar á heimasíðu embættis landlæknis, landlaeknir.is.