Gunnar Jarl og Inquinamento
Á næstu vikum og mánuðum gefur að líta í anddyri VMA verk nemenda á listnámsbraut úr áfanganum MYL 504. Hvert verk verður uppi eina viku í senn. Fyrsta málverk ársins var hengt upp í dag og er það akrílverk á striga og ber heitið "Inquinamento". Málarinn er Akureyringurinn Gunnar Jarl Gunnarsson.
Í MYL 504 vinna nemendur akrílverk á striga út frá eigin hugmynd sem þeir þróa markvisst með skissum og tilraunum. Gunnar Jarl, sem mun útskrifast í vor af myndlistarkjörsviði listnámsbrautar, segist í stórum dráttum vera að vinna með heiminn í dag í þessu akrílverki - í öllum sínum ljótleika. Heimur versnandi fer, segir Gunnar Jarl og vísar til ruslahauganna í forgrunni myndarinnar, en síðan sé konan í myndinni einskonar "icon" fyrir mannkynið. "Í stórum dráttum má segja að myndin sé mín sýn á heiminn eins og hann er í dag," segir Gunnar Jarl.
Á sínum tíma innritaðist Gunnar Jarl á almenna braut VMA og hann stefndi að því að fara í byggingadeild og læra að verða smiður. En málin þróuðust þannig að hann fór á listnámsbraut og sér ekki eftir því. "Nei, alls ekki. Þetta er frábært nám. Ég hef alltaf teiknað mikið og það auðveldaði mér ákvörðunina um að fara á listnámsbraut. Ég stefni á áframhaldandi nám á þessu sviði, teiknibraut í Myndlistarskólanum í Reykjavík heillar mig eins og er," segir Gunnar Jarl Gunnarsson.