Hægt að panta skólapeysu VMA
Nemendur geta nú mátað og skráð sig fyrir VMA-skólapeysu hjá Þórdunu – nemendafélagi VMA. Í boði eru bæði renndar og órenndar hettupeysur, sem verða merktar á bakinu með lógói VMA og síðan geta nemendur valið, ef þeir vija, að fá einnig nöfn sín og lógó Þórdunu á peysurnar.
Það munu vera þrjú ár síðan síðast var hægt að kaupa VMA-skólapeysur. Núna stendur Þórduna – nemendafélag VMA – fyrir því að kaupa peysurnar. Ekki er þó ætlunin að Þórduna verði með lager af peysum, heldur verða keyptar peysur frá fyrirtækinu Sérmerkt samkvæmt pöntunum frá nemendum. Um er að ræða léttar en jafnframt hlýjar peysur úr blöndu af bómull og polyester. Hettupeysa með rennilás kostar 5.000 kr. en órennd kostar peysan 4.500 kr. Í boði eru þrír litir, fjólubláar, dökkgráar og dökkbláar.
Byrjað var að kynna peysurnar í síðustu viku og í þessar viku verður haldið áfram að taka niður pantanir. Það verður kynnt betur á facebooksíðu Þórdunu.
Í leiðinni er rétt að nefna að í þessari viku verður auglýst árlegt kvennakvöld sem verður í næstu viku í Gryfjunni. Karlakvöldið er að baki en það var haldið í byrjun mánaðarins.