Hægt að tjá sig á margbreytilegan hátt í listinni
„Alveg frá því ég var lítil hef ég vitað að ég myndi fara þessa leið í námi. Þegar vinkona mín frá Fáskrúðsfirði ákvað að fara í VMA var engin spurning að kæmi líka hingað,“ segir Guðbjörg María Ívarsdóttir, sem er á þriðja ári myndlistarlínu listnáms- og hönnunarbrautar VMA.
„Ég er mjög ánægð með námið hérna í VMA. Kennslan á listnámsbrautinni er frábær, kennararnir góðir og skemmtilegir. Það er heimilisleg stemning hjá okkur, það er svo gaman að vera umkringd af fólki sem hefur sama áhugamál,“ segir Guðbjörg og bætir við að hún hafi mikla ánægju af því að búa til myndlist í tölvunni og hún hafi sérstaka ánægju af því að skapa teiknimyndasögur. „Þegar ég var yngri las ég mikið af teiknimyndasögum og þær hafa því fylgt mér lengi. Ég á auðveldara með að tjá mig í myndum en með skrifuðum texta.“
Guðbjörg María fæddist í Vogum á Vatnsleysuströnd. Tveggja ára flutti hún með fjölskyldunni til Danmerkur og bjó þar næstu sex árin. Heim flutti fjölskyldan aftur árið 2011, fyrst í Voga en síðan lá leiðin austur á Fáskrúðsfjörð og Reyðarfjörð. Tíunda bekknum lauk Guðbjörg á Fáskrúðsfirði. Fjölskyldan flutti þá vestur í Búðardal en Guðbjörg fór til Akureyrar í VMA.
Stefnan er tekin á að ljúka náminu í VMA að rúmu ári liðnu, vorið 2023, og hvað þá tekur við er óráðið. „Ég fer líklega í nám en ég veit ekki nákvæmlega í hvaða nám. En hvað sem ég geri langar mig til þess að geta unnið við listina. Hún veitir manni tækifæri til þess að geta tjáð sig á svo ólíkan hátt,“ segir Guðbjörg.
Á haustönn 2021 vann Guðbjörg akrílverk sem hefur verið til sýnis í VMA – á vegg gegnt austurinngangi skólans. Hér er útfærsla Guðbjargar á kanínu. Það sem gerir verkið sérstaklega skemmtilegt er að það vann Guðbjörg alfarið með berum höndunum, penslar komu hvergi við sögu í listsköpuninni.