Hannaði og smíðaði dósapressu
Dalvíkingurinnn Helgi Halldórsson hannaði og smíðaði sjálfvirka dósapressu sem lokaverkefni í vélstjórnarnámi sínu í VMA.
„Mig langaði að vinna verkefni varðandi sjálfvirkni, ekki síst vegna þess að ég hef kynnst sjálfvirkni í fiskvinnslu og sé að hún er að aukast dag frá degi. Mig langaði því að kynna mér iðntölvustýringar betur og nýta mér þá þekkingu í lokaverkefnið. Ég hef unnið hjá Vélvirkja á Dalvík og við tókum þátt í uppsetningu búnaðar í nýju fiskvinnsluveri Samherja á Dalvík. Þar kynntist ég vel þessari miklu sjálfvirkni og þróun tæknibúnaðar í fiskvinnslu sem mér fannst heillandi og það kveikti áhuga minn á því að kynnast betur á hverju hún byggðist,“ segir Helgi.
En hvernig kom það til að Helgi ákvað að útbúa sjálfvirka dósapressu? Hann segir það eiga rætur að rekja til þess að á Dalvík sé ekki móttaka á flöskum og dósum eins og á Akureyri. „Fyrir vikið eiga ruslapokarnir það til að staflast upp í bílskúrnum og til þess að minnka umfang þeirra fannst mér kjörið tækifæri að útbúa þessa dósapressu. Auðvitað er hægt að pressa dósir með fótunum eða nota einfaldlega sleggju og berja þær saman, en með því að hanna þessa dósapressu vildi ég nýta sjálfvirknina. Á pressunni er teljari og því getur maður auðveldlega fundið út hversu margar dósir eru í pokanum. Á Dalvík er mikið um að fólk láti annað hvort björgunarsveitinni eða Skíðafélagi Dalvíkur í té flöskurnar og þær eru síðan mikilvæg fjáröflun fyrir þessi félagasamtök.“
Helgi segir að ýmislegt í vélstjórnarnáminu, t.d. innsýn í rökrásir og forritunarmál, hafi nýst vel til að vinna þetta verkefni. „Ég naut líka góðs af því að bróðir minn er rafmagnstæknifræðingur og starfar hjá Samey í Reykjavík og þeir eru einmitt mikið að vinna með ýmsar sjálfvirknilausnir, iðntæknistýringar, róbóta o.fl. Samey lét mig hafa ýmsa hluti sem ég þurfti til smíðinnar og kann ég þeim bestu þakkir fyrir það. Ég vil einnig þakka vélstjóra og rafvirkjum hjá Samherja á Dalvík fyrir aðstoðina en þeir útveguðu mér líka ýmsan búnað og gáfu mér góð ráð.
Fyrir mér snerist þetta verkefni um að geta hannað, smíðað og forritað svona sjálfvirkt ferli. Stóra málið var að læra betur inn á slíka sjálfvirkni til þess að geta nýtt þá þekkingu út á vinnumarkaðnum.“
Helgi segist vera mjög sáttur við vélstjórnarnámið í VMA, sem hann er núna að ljúka við. „Já, ég er mjög ánægður með þetta nám. Vissulega hafa þessi fimm ár verið strembin en þau hafa þó verið fljót að líða. Með náminu eru margar flugur slegnar í einu höggi. Ég lýk stúdentsprófi og hef jafnfamt lokið námi í vélvirkjun. Samningstímann í vélvirkjun tók ég hjá Vélvirkja á Dalvík samhliða skólanum og fór síðan í sveinspróf. Það vantar lítið upp á réttindin í rafvirkjun og ég stefni á að taka síðar það sem upp á vantar til þess að fá starfsréttindi í því fagi líka,“ segir Helgi Halldórsson.