Hársnyrtinemar sýndu færni sína á Glerártorgi
Í desember nk. ljúka þrettán nemendur námi af hársnyrtibraut VMA – tólf konur og einn karl – eftir fimm anna nám. Liður í þessari lokaönn nemendanna var þriggja klukkustunda útskriftarsýning á Glerártorgi sl. laugardag þar sem þeir klipptu og greiddu módelin sín, semsíðan brugðu þau sér í betri fötin fyrir myndatökur.
Valdís Jósefsdóttir, ein nemendanna þrettán sem eru nú á síðustu önn í hársnyrtináminu, segir að tekin hafi verið ákvörðun um að hafa ekki tískusýningu í ár eins og mörg undanfarin ár en hafa þess í stað sýningu þar sem fólki gæfist tækifæri til þess að fylgjast með nemendum vinna með sín módel frá grunni. Hún segir að hverjum hinna þrettán nemenda hafi verið að gert að sýna dömu- og herraklippingu og sömuleiðis eina greiðslu. Til þess að unnt væri að setja upp sýninguna á Glerártorgi með þessum hætti var kennslustofa hársnyrtibrautar í VMA, þar með taldar vinnustöðvarnar, flutt úr skólanum og niður á Glerártorg.
Nemendurnir þrettán stóðu að öllum undirbúningi sýningarinnar með dyggri aðstoð kennara sinna, Hörpu Birgisdóttur og Hildar Salínu Ævarsdóttur.
„Það var auðvitað mikil vinna að undirbúa sýninguna en hún var jafnframt mjög skemmtileg,“ segir Valdís Jósefsdóttir og nefnir að nemendur hafi fengið til liðs við sig fataverslanir á Glerártorgi sem létu þeim í té fatnað fyrir módelin þeirra. Þá hafi Reykjavík Warehouse ehf látið þá hafa hársnyrtivörur fyrir sýninguna endurgjaldslaust. Vildi Valdís koma á framfæri innilegu þakklæti til þeirra fyrirtækja sem lögðu þeim lið.
„Vissulega er það mikil og góð reynsla fyrir okkur að undirbúa slíka sýningu frá grunni. En því fylgdi óneitanlega töluvert stress að klippa og greiða með svona marga að horfa á sig. Það var virkilega gaman að sjá hversu mikinn áhuga fólk sýndi þessari sýningu okkar og gaf sér góðan tíma til þess að fylgjast með,“ segir Valdís.
Þó svo að nemendur séu nú á lokasprettinum í VMA er ekki björninn unninn því þeir þurfa einnig að ljúka átján mánaða samningstíma á stofu. Sem stendur eru fjórir af þessum þrettán nemendum komnir á samning og að þeim tíma liðnum geta þeir farið í sveinspróf.
Valdís, sem er frá Húsavík, segir að hún sé mjög sátt við námið í VMA og vonandi geti hún starfað í þessu fagi í framtíðinni. Hennar draumur er að ljúka samningi, fara síðan í sveinspróf og opna hársnyrtistofu í sveit!
Hilmar Friðjónsson, kennari og áhugaljósmyndari, lét sitt ekki eftir liggja og myndaði útskriftarsýningu hársnyrtinemanna í gríð og erg. Hér eru myndaalbúm sem sýna nemendur að störfum á Glerártorgi:
Og hér hafa módelin komið sér fyrir í myndastúdíóinu - nýklippt eða með flotta hárgreiðslu og uppáklædd: