Fara í efni

Hátíðleg athöfn í Hofi - 113 nemendur brautskráðir

Útskriftarhópur VMA í Hofi í dag.
Útskriftarhópur VMA í Hofi í dag.

Í dag voru brautskráðir 113 nemendur VMA við hátíðlega athöfn í Menningarhúsinu Hofi. Afhent voru 137 skírteini sem þýðir að margir nemendur brautskráðust af tveimur námsbrautum.

Hér má sjá myndir frá brautskráningunni í dag. Hilmar Friðjónsson tók einnig fullt af myndum sem hér má sjá. Og hér eru enn fleiri myndir frá Hilmari.

Hjalti Jón Sveinsson skólameistari sagði útskriftarhópurinn gæfi ágæta mynd af þeirri breidd í námsframboði sem VMA bjóði upp á. “Það er von okkar að sá hluti hópsins sem hefur aflað sér starfsréttinda standi vel undir þeim og kunni sitt fag á meðan hinir, stúdentarnir, uppfylli þær kröfur sem gerðar verða til þeirra stefni þeir á áframhaldandi nám á háskólastigi eins og þeir hafa nú rétt til. Iðnaðarmennirnir eiga reyndar sveinsprófið eftir þar sem þeir þurfa að sanna bæði verklega og bóklega þekkingu og færni og etja kappi við félaga sína víðs vegar af landinu. Er það ekki síður prófsteinn fyrir skólann og meistara þeirra en fyrir nemendurna en staðreyndin er sú að nemendur okkar hafa jafnan staðið sig með prýði á sveinsprófum og oft skarað fram úr.”

Skólameistari sagði að á árinu 2014 hafi verið mikill kraftur í starfi skólans sem endranær og mörg verkefni, sem ekki beinlínis tengdust hinum daglegu skyldum, hafa verið innt af hendi. Meðal annars hafi mikil áhersla verið lögð á að treysta samstarf  VMA við grunnskóla- og háskólasviðið annars vegar og hins vegar við atvinnulífið. Aldrei hafi verið meiri þörf fyrir það en nú að allir þessir aðilar tali saman og viti hvað hinn sé að gera og hugsa.

“Haustönnin hefur verið óvenju erlilsöm af mörgum ástæðum. Ég fullyrði reyndar að aldrei fyrr hafi verið svo mikið í gangi á vettvangi framhaldsskólanna eins og nú; verið er að vinna við nýjar námskrár bæði á vettvangi bóknáms og starfsnáms, stórvægilegar breytingar eru í farvatninu auk þess sem verið er að ganga frá svokölluðu vinnumati kennara í samræmi við kjarasamning þeirra og ríkisins frá því síðastliðið vor; og verður hið nýja fyrirkomulag borið undir atkvæði í febrúar. Það má því segja að á bak við tjöldin séu bæði straumar og stefnur að takast á og mynda kraftmikla iðu.
Þá er þess að geta að skólasamfélagið varð fyrir miku áfalli nýlega við andlát ástsæls kennara okkar til margra ára langt fyrir aldur fram, Árna Jóhannssonar. Blessuð sé minning hans. Þá er nýlátinn fyrrverandi kennari skólans og mikill velunnari, Sigmundur Magnússon, vélstjóri. Við minnumst hans líka með þakkæti.
Við þurfum að fylgjast með því sem er að gerast í kringum okkur og huga að því hvort námsframboðið sé í takti við kröfur tímans hverju sinni. Ég tel að betur megi gera. Það er von mín að á allra næstu misserum verði unnt að bjóða upp á frekara nám í hvers konar hönnun, nýsköpunarfræðum og upplýsingamiðlun og höfum við verið að þreifa okkur áfram á því sviði á síðustu önnum.  Reyndar er það svo að þróunin í upplýsingatækni og hvers konar miðlun er svo hröð að margir þeir nemendur sem við erum að kveðja í dag og hinir sem á eftir koma munu starfa í atvinnugreinum sem eru jafnvel ekki til í dag. Nefna má nærtæk dæmi úr ferðaþjónustunni í þessu samandi sem hefur vaxið fiskur um hrygg og sífellt eru að dúkka upp fyrirtæki sem bjóða ferðamönnum upp á þjónustu sem engum hefði dottið í hug fyrir nokkrum árum; nema kannski Einari Benediktssyni skáldi þegar hann ætlaði að selja útlendingum norðurljósin.”

Veit duftsins son nokkra dýrlegri sýn
en drottnanna hásal í rafurloga?
Sjá grundu og vog undir gullhvelfdum boga!
- Hver getur nú unað við spil og vín?
Sjálf moldin er hrein eins og mær við lín,
mókar í haustsins visnu rósum.
Hvert sandkorn í loftsins litum skín,
og lækirnir kyssast í silfurrósum.
Við útheimsins skaut er allt eldur og skraut
af iðandi norðurljósum.

Skóli og nærsamfélag
Frá mínum bæjardyrum séð tryggir Verkmenntaskólinn á Akureyri sjálfbærni nærsamfélagsins á margvíslegan hátt, það er að segja, að það sé sjálfu sér nægt um svo margt. Nefna má atvinnulífið í þessu sambandi; ef VMA brautkráði ekki á ári hverju tugi vel menntaðra iðnaðarmanna og fólk með starfsmenntun af ýmsu tagi, þá væri það ekki nærri eins kröftugt og raun ber vitni. Í þessu samhengi má einnig nefna háskólann okkar á Akureyri. Það skiptir okkur hér fyrir norðan miklu máli að geta boðið upp á sem fjölbreyttast nám; ekki bara fyrir unga fólkið á Akureyri og á Eyjafjarðarsvæðinu; því að í VMA eiguum við miklu stærra bakland bæði fyrir vestan okkur og austan - um 25% nemenda eiga lögheimili utan Eyjafjarðarsvæðisins.
Við þurfum að vera meðvituð um mikilvægi skólanna fyrir nærsamfélagið og spyrja okkur þeirrar spurningar hvort við bjóðum upp á það nám sem ungt fólk og samfélagið hér þurfa á að halda. Af þeim sökum er fjölbreytni mikilvæg og við þurfum að hlusta á atvinnulífið; hverjar þarfir þess eru. Þetta tvennt fer saman; öflugt og fjölbreytt atvinnulíf og skólar á öllum stigum sem mennta fólk til starfa og búsetu á svæðinu. Hér gegnir Háskólinn á Akureyri einnig mikilvægu hlutverki.
Til þess að halda þessari mikilvægu stöðu okkar þurfum við sífellt að vera á verði gagnvart því að skólarnir eru ekki sjálfsagðir hlutir sem spretta upp af sjálfu sér. Þeir þurfa að eiga öfluga bakhjarla.  Þeim er nauðsynlegt að afla fjár til starfs síns og viðgangs; og því miður er oft á brattan að sækja í þeim efnum. Rekstrarfé sækjum við til ríkisvaldsins. Við eigum samt því láni að fagna hér í Verkmenntaskólanum á Akureyri að hann nýtur mikils trausts og virðingar; ekki bara hér í nærsamfélaginu heldur á landsvísu. Af því erum við ákaflega stolt en við megum samt aldrei sofna á verðinum. Áfram skal haldið og með öllum ráðum reynum við að afla skólanum þess stuðnings sem hann þarf á að halda.”

30 ára afmæli
Skólameistari gat þess í ræðu sinni að á þessu ári hafi þess verið minnst að 30 ár væru liðin frá stofnun skólans með sameiningu framhaldsdeildar Gagnfræðaskóla Akureyrar, Iðnskólans á Akureyri og Hússtjórnarskólans. “Upphaflega stóð til að byggja yfir starfsemina á fjórum árum en sitthvað varð til þess að byggingarframkvæmdir gengu ekki hraðar en raun bar vitni og ýmsu var bætt við og breytt frá upphaflegum hugmyndum. Því hefur byggingarsagan hingað til spannað 29 ár. Segja má að svolítil töf hafi jafnvel verið til bóta vegna þess að byggingarnar þróuðust í samræmi við breyttar hugmyndir um námsframboð, fjölda nemenda og þarfir skólans. Reyndar var það svo að mörg aðalrými skólans voru upphaflega hönnuð með um 700-800 nemendur í huga en lengi vel hafa nemendur skólans verið á 12. og 13. hundraðið. Af þeim sökum meðal annars hefur nú verið gengið frá deiliskipulagi af skólalóðinni þar sem gert er ráð fyrir viðbótarbyggingum sem vonandi munu sjá dagsins ljós í náinni framtíð, annars vegar byggingu sem myndi hýsa verknámsaðstöðu og stoðþjónustu og hins vegar íþróttahús.
Við höfum minnst 30 ára afmælisins með ýmsum hætti. Við gerðum okkur glaðan dag annars vegar með núverandi og fyrrverandi starfsfólki skólans í október og buðum einnig til sérstakrar móttöku fyrir samstarfsaðila skólans og velunnara hans. Síðast en ekki síst hófum við, starfsfólk og nemendur,  starfið í haust eftir að hafa í sumar endurnýjað Gryfjuna, aðalsal og samveruvettvang nemenda. Húsakynnin höfðu bókstaflega gengið í endurnýjun lífdaga en verkefni hönnuðarins, Fanneyjar Hauksdóttur, arkitekts, var að gera húsakynnin aðgengilegri og meira aðlaðandi. Óhætt er að segja að þessi ósk hafi náð fram að ganga vegna þess að nýtingin á Gryfjunni hefur stóraukist, samvera nemenda er orðin meiri og félagslífið hefur náð meiri hæðum en mörg undanfarin ár. Endurbæturnar voru samvinnuverkefni skólans, Mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Fasteigna ríkissjóðs. Þetta er dæmi um viðleitni okkar til að hlúa sem best að nemendum ekki síður utan kennslustunda; skólinn er þeirra annað heimili og þar þarf þeim að líða vel. Ég er sannfærður um að þessi breyting á Gryfjunni muni bæta skólabrag og styrkja félagslíf  og samveru nemenda til muna.”

Endurskoðun námskrár
Skólameistari ræddi um þá endurskoðun á námskrá sem nú stendur yfir um leið og skipulagðar hafa verið þriggja ára námsbrautir til stúdentsprófs samræmi við stefnu Mennta- og menningarmálaráðuneytisins. “Í skólanámskránni eiga að koma fram þau gildi sem skólastarfið einkennist af, stefna skólans og starfsmanna hans í nánast öllu er lýtur að námi og kennslu við skólann. Vinnan hefur farið fram í samstarfi stjórnenda, kennara og annars starfsfólks og er sannarlega víða komið við. Þó eru það nokkur megingildi sem við erum sammála um að séu einkennandi fyrir skólasamfélagið okkar og skólamenninguna.
Nemendur eru hornsteinn Verkmenntaskólans á Akureyri. Það að þeir þroskist, öðlist sjálfstraust, líði vel, tilheyri hópnum og tileinki sér ákveðna leikni, þekkingu og hæfni skiptir mestu máli. Til að koma til móts við ólíkar þarfir nemenda býður VMA upp á fjölbreyttar námsleiðir, góða þjónustu og mikinn stuðning við nemendur. 
Við höfum valið okkur þrjú kjörorð eins og títt er með fyrirtæki og stofnanir sem setja sér markmið og vinna eftirr gæðakerfi, þau eru fagmennska, fjölbreytni og virðing.

Fagmennska felur í sér:
- ábyrgð og traust
- að verk séu unnin heiðarlega og vinnubrögð séu gagnsæ
- að vinnubrögð einkennist af vandvirkni og að þau séu útfærð af sérstakri færni
- að vinnubrögð séu fumlaus og að markvisst sé unnið að útfærslu hvers verkefnis
- að sá sem tekur að sér verkefni sýni alúð í því hvernig hann sinnir því.

Fjölbreytni felur í sér:
- að nemendur fái fjölbreytt viðfangsefni
- að kennsluhættir, námsframboð og námsmat sé fjölbreytilegt og mæti væntingum, hæfileikum, áhuga og þörfum
- fjölbreyttan nemendahóp hvað varðar aldur, búsetu, námslega stöðu og fjölskyldustöðu
- fjölbreyttan hóp starfsmanna með mismunandi reynslu og menntun.

Virðing felur í sér að:
- allt starf einkennist af gagnkvæmri virðingu, umhyggju, umburðarlyndi og jafnrétti
- allir eigi jafna möguleika til þátttöku og áhrifa án tillits til félags- og efnahagslegrar stöðu, hæfni, reynslu, aldurs, kynferðis, kynhneigðar, trúarafstöðu, kynþáttar eða þjóðernis
- leysa ágreining og geta sett sig í spor annarra
- fara að almennum skóla- og umgengisreglum.

Tækifæri en ekki ógnanir
Hjalti Jón sagði að með nýjum námsbrautum og breyttu skipulagi náms opnist margvíslegir möguleikar bæði fyrir skólann sjálfan og nemendur hans. “Og þó að margir hafi efast og sumir séu enn fullir efasemda um skynsemi þess að fækka námsárum til stúdentsprófs úr fjórum árum í þrjú; er það svo að ýmis ný tækifæri skapast og bíða okkar. Á það ber að líta að þeim nemendum VMA sem ljúka námi á þremur eða þremur og hálfu ár hefur fjölgað stöðugt á síðustu árum og í dag eru margir að brauskrást héðan aðeins 19 ára gamlir og jafnvel 18.
Duglegir og vel skipulagðir nemendur eiga að geta lokið stúdentsprófi á þremur árum með góðu móti samkvæmt hinu nýja skipulagi. Kemur þar margt til; eins og það að komi þeir upp úr grunnskóla með góðar einkunnir í kjarnagreinunum íslensku, ensku og stærðfræði innritast þeir sjálfkrafa í framhaldsáfanga hér í VMA og vinna sér þar með inn nokkrar einingar. Þá er þess að geta að skólaárið mun lengjast lítillega auk þess sem tíminn mun nýtast betur þegar afnumin hafa verið skil á milli kennsludaga og prófadaga. Loks er þess að geta að námsgreinum mun fækka lítillega, sérhæfing aukast og hið frjálsa val mun verða takmakaðra. Við teljum mikilvægt að starfsnámið verði líka skipulagt þannig að unnt verði að ljúka því á þremur árum þó svo að einhver tími í þágu starfsþjálfunar á vinnustað kunni enn að standa út af. Einnig er það áhugi okkar skólameistara verknámsskólanna að nám á vinnustað, hvort sem um er að ræða iðnnám til sveinsprófs eða annað starfsnám, verði skipulagt af skólunum í samvinnu við atvinnulífið. Slíkt myndi tryggja nemendum námslok á tilteknum tíma og gera námstímann skilvirkari. Og síðast en ekki síst gæti slíkt fyrirkomulag auðveldað nemendum að stefna samhliða að sveinsprófi og stúdentsprófi hafi þeir áhuga á því.
 En hvað sem líður styttingu náms til stúdentsprófs má ljóst vera að sá sveigjanleiki sem verið hefur í áfangakerfinu fram að þessu mun verða áfram. Staðreyndin er sú að aðeins hluti af hverjum árgangi nemenda mun geta brautskráðst 19 ára gamall. Við þurfum áfram að gera ráð fyrir því að hluti nýnema á hausti hverju þurfi að þreyta undirbúningsnám áður en þeir uppfylla skilyrði til þess að fara inn á tilteknar brautir. Jafnframt er og verður áfram algengt að nemendur skipti um brautir á miðri leið eða komi aftur í nám eftir lengra eða skemmra hlé á námi.”

Afleit menntapólitík
“En þá erum við komin að þeirri umræðu sem átt hefur sér stað í tengslum við nýsamþakkt frumvarp ríkisstjórnarinnar um fjárlög ársins 2015 um það að ekki verði lengur gert ráð fyrir nemendum eldri en 25 ára á bóknámsbrautum framhaldsskólanna. Okkur finnst þetta afleit menntapólitík. Vonandi munu stjórnvöld sjá sig um hönd. Ljóst má vera að með þeim skipulagsbreytingum sem fyrirhugaðar eru mun meðalaldur framhaldsskólanema lækka og verður að nokkrum árum liðnum í meira samræmi við það sem gerist í nágrannalöndum okkar. Við megum samt ekki gleyma því að við viljum áfram geta tekið á móti týndu sauðunum okkar opnum örmum og gefið þeim annað tækifæri; það er engin spurning.
Auk hefðbundinna námsbrauta til stúdentsprófs mun ný námskrá VMA fela í sér nýjungar á borð við opna braut eða svokallaða fjölgreinabraut sem mun meðal annars opna stúdentsprófsleiðina fyrir þeim nemendum sem kjósa að sérhæfa sig í einhverri hinna fjölmörgu verk- og iðngreina. Brautin byggist á því að nemendur ljúki ákveðnum kjarna; en eigi þess síðan kost að sérhæfa sig í hvort sem er hefðbundnum bóknámsgreinum eins og raungreinum, tungumálum eða stærðfræði eða verkgreinum á borð við rafvirkjun eða vélfræði til dæmis. Er þessi kostur ekki síst hugsaður fyrir duglega og einbeitta nemendur sem vita hvað þeir vilja og hafa hug á áframhaldandi námi á sérsviði sínu að loknu stúdentsprófi.
Ég sé ekki ógnanir við þessi tímamót heldur spennandi tækifæri sem gaman verður að takast á við með áhugasömu og kraftmiklu samstarfsfólki. Ég er jafnframt viss um að nemendur munu taka þessu vel; ekki síst þeir sem eru tilbúnir til þess að leggja svolítið á sig, búa yfir seiglu sem knýr þá áfram og ekki skemmir að þeir hafi öðlast sýn á framtíð sína.
Ég er þess fullviss að áhugi ungs fólks á tækninámi bæði framhaldsskólastigi og háskólastigi muni aukast á næstu árum; hin nýja námskrá okkar hér í VMA mun koma mjög til móts við þau ungmenni sem velja sér þá leið og sjá fyrir sér hin fjölmörgu tækifæri stór og smá sem gætu beðið þeirra í atvinnulífinu þar sem sóst er eftir vel menntuðu fólki á margvíslegum sviðum tækni og tækniframleiðslu bæði hér heima og úti í hinum stóra heimi.”

Öflugt erlent samstarf og félagslíf
Á nýliðinni haustönn hafa margir starfsmenn og nemendur skólans tekið þátt í verkefnum hvort heldur sem er innan Norðurlandanna eða í tengslum við hina svonefndu Erasmus-menntaáætlun Evrópusambandsins á grundvelli aðildar Íslands að EES-samningnum. Hópur nemenda, kennara og stjórnenda hefur verið á faraldsfæti til þess að hitta samstarfsaðila sína og sinna verkefnum sínum. Þá höfum við líka tekið á móti fjölmörgum skólastjórnendum, kennurum og nemendum frá skólum víðs vegar um Evrópu og hefur vart liðið sú vika að ekki hafi verið hér erlendir gestir til skemmri eða lengri tíma.
Þá vil ég nota tækifærið og nefna góðan árangur nemenda okkar  á Íslandsmóti iðn- og verkgreina sem fram fór í Kórnum í Kópavogi í vor. Okkar fólk gerði sér lítið fyrir og kom heim með fjóra Íslandsmeistaratitla; í húsasmíði, rafvirkjun, kjötiðn og  á sviði sjúkraliða. Þessi árangur hlýtur að sýna að við séum á réttri leið og að VMA standist samanburð við það besta sem gerist á þessu sviði. Nokkrir félagar úr leiklistarklúbbi VMA, Yggdrasil, tóku þátt í leiklistarkeppni framhaldsskólanna, „Leiktu betur“, sem fram fór í Borgarleikhúsinu á dögunum.  Keppnin gengur út á spunaleik og vita keppendur ekki fyrirfram hvað þeir eiga að leika. VMA-nemar stóðu sig frábærlega á sviði Borgarleikhússins og uppskáru þriðja sætið.Þetta er glæsilegur árangur og er til marks um þá grósku í leiklistinni sem verið hefur í skólanum og kom heldur betur í ljós í sýningu nemenda á leikritinu 101 Reykjavík sem Jón Gunnar Þórðarson leikstjóri setti á svið með þeim  í Rýminu á Akureyri fyrir skemmstu.
Þá skipuðu nemendur okkar lið sem þátt tók í úrslitum framkvæmdakeppni framhaldsskólanna, Boxinu, sem haldin var í Háskólanum í Reykjavík fyrir skemmstu. Margvísleg verkefni eru lögð fyrir keppendur sem þurfa að nota mismunandi færni, leikni og innsæi til þess að leysa þrautirnar. Það skemmtilega við keppnina er að liðin okkar í VMA skipa jafnan nemendur af mismunandi sviðum eins og núna; einn af náttúrfræðibraut, tveir af vélstjórn, einn af viðskipta- og hagfræðibraut og einn af listnámsbraut. Fulltrúar VMA stóðu sig mjög vel og fengu verðlaun fyrir góðar lausnir á tveimur þrautum í keppninni. Þetta eru skemmtileg dæmi um þau ólíku viðfangsefni sem nemendur okkar fást við utan hinna hefðbundnu kennslustunda.”

Í lok ræðu sinnar beindi skólameistari orðum sínum til útskriftarnema:

Á stund sem þessari langar mig að brýna fyrir ykkur nokkur mikilvæg gildi eins og það að bera virðingu fyrir viðhorfum og skoðunum annarra. Að sýna samferðarfólki ykkar umburðarlyndi á lífsins leið og vera æðrulaus gagnvart því sem þið ráðið ekki við. Hlustið á sjónarmið annarra. Umgangist alla þá er á vegi ykkar verða af sömu alúð, háa sem lága.
Hafið hugfast að ekkert það starf sem ykkur verður falið er svo ómerkilegt að það eigi ekki skilið að vera leyst af hendi af fyllstu alúð og samviskusemi. Verið trú yfir því sem ykkur er treyst fyrir í stóru sem smáu.
Berið virðingu fyrir og verið trú uppruna ykkar og heimabyggð og leggið alúð við móðurmálið.

Þessi dagur verður ykkur minnisstæður alla ævi; sá dagur þegar þið stiguð út í lífið reynslunni ríkari og með prófskírteini í hendi sem gefur ykkur tækifæri til að nota hæfileika ykkar og þroskast enn frekar en hingað til hvort sem verður í námi eða starfi.“

 ----

Eftirtaldir afhentu nemendum prófskírteini sín: Jónas Jónsson  kennslustjóri samfélagsfræðasviðs, Ómar Kristinsson kennslustjóri raungreinasviðs, Arna Valsdóttir kennari í forföllum Ragnheiðar Þórsdóttur kennslustjóra listnámsbrautar, Baldvin Ringsted  kennslustjóri tæknisviðs, Ragnheiður Gunnbjörnsdóttir, kennslustjóri starfsbrautar og Ingimar Árnason  kennslustjóri fjarnáms

----

Rósa Ingibjörg Tómasdóttur, nýstúdent, söng tvö lög við brautskráninguna. Hið fyrra var jólalag við undirleik Valmars Väljaots og hið síðara söng hún við undirleik Hjalta Jóns skólameistara á gítar og nokkurra skólafélaga sinna á súpudósir!

----

Hólmfríður Lilja Birgisdóttir, fyrrverandi formaður Þórdunu, ávarpaði samkomuna fyrir hönd útskriftarnema.

----

Viðurkenningar
Eftirtaldir hlutu viðurkenningar:
Andri Geir Helgason fyrir  góðan árangur í samfélagsgreinum. Eru verðlaunin veitt úr minningarsjóði Alberts Sölva heitins, sem var kennari hér við VMA.
Marion Laur hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í frönsku, gefandi er Stefna hugbúnaðarhús. Marion fékk einnig verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í ensku. Gefandi er SBA-Norðurleið. Þá fékk Marion verðlaun fyrir bestan árangur á félagsfræðabraut. Gefandi er Íslandsbanki.
Þess má geta að þegar Marion kom fyrst í VMA fyrir þremur og hálfu ári talaði hún ekki orð í íslensku, en þá var hún nýkomin frá heimalandi sínu, Eistlandi.
Rósa Ingibjörg Tómasdóttir
hlaut viðurkenningu fyrir frábæran árangur í stærðfræði. Gefandi er Íslenska stærðfræðafélagið. Rósa Ingibjörg fékk einnig verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í efnafræði. Gefandi er Efnafræðifélag Íslands.Loks fékk Rósa Ingibjörg viðurkenningu fyrir bestan árangur á núttúrufræðibraut og á stúdentsprófi. Gefandi er Gámaþjónusta Norðurlands.
Katrín Hrund Ryan
hlaut viðurkenningu  fyrir framúrskarandi árangur í textílgreinum á listnámsbraut.Gefandi er Kvennasamband Eyjafjarðar.
Jónas Þórólfsson hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í kjötiðnaðargreinum. Gefendur eru Norðlenska og Kjarnafæði.
Lena Birgisdóttir  hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í myndlistargreinum. Gefandi er verslun Slippfélagsins á Akureyri.
Ragnar Bollason  hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í myndlistargreinum.Gefandi er A4 á Akureyri.
Agnes Tulinius  hlaut verðlaun fyrir bestan árangur í hjúkrunargreinum á sjúkraliðabraut. Gefandi er Sjúkrahúsið á Akureyri.
Sigurður Hólm Sæmundsson hlaut verðlaun fyrir bestan árangur rafvirkja. Gefandi er Ískraft á Akureyri.
Glódís Ingólfsdóttir hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í íslensku. Gefandi er Eymundsson á Akureyri.
Borghildur Dóra Björnsdóttir hlaut einnig verðlaun fyrir framúrskarandi frammistöðu í íslensku. Gefandi er Eymundsson á Akureyri.
Krystsina Tsuitchanka hlaut hvatningarverðlaun skólameistara fyrir góðan ástundun og frábæran námsárangur; meðal annars í ljósi þess að móðurmál hennar er rússneska. Hún er dæmi um góðan skólaþegn sem lætur sér ekki allt fyrir brjósti brenna, samviskusöm og ákveðin í að ná markmiðum sínum. Gefandi er MS á Akureyri.
Hið sama á við um Guðmund Ragnar Pálsson, sem brautskráðist bæði sem vélstjóri og rafvirki. Hann fékk líka sérstök hvatningarverðlaun fyrir seiglu og samsviskusemi með góðri kveðju frá kennurum sínum. Gefandi er Norðurorka.

Blómvendir fyrir þátttöku í félagslífi
Eins og venja er til var nokkrum nemendum sem hafa starfað dyggilega að félagslífi í skólanum afhentir blómvendir fyrir dugnað og ósérhlífni í þágu félaga sinna. Ýmist hafa þessir nemendur gegnt ábygðarstörfum fyrir nemendafélagið Þórdunu eða lagt gjörfa hönd á plóginn á einhverjum sviðum félagslífsins.
Andri Már Sævarsson
Engilbert Haukur Kolbeinsson
Hilmar Þór Egilson
Hólmfríður Lilja Birgisdóttir
Oddur Viðar Malmquist (auk þess hampar hann Íslandsmeistaratitlinum í rafvirkjun).
Ragnar Bollason
Rósa Ingibjörg Tómasdóttir
Sigurbjörg Arna Stefánsdóttir
Viktor Samúelsson, íþróttamaður skólans.