Hausinn er á fullu allan tímann
„Það er aldrei of seint að læra eitthvað nýtt,“ segir Lísa Björk Gunnarsdóttir, sem er í fyrsta námshópnum í listnámi-kvöldskóla í VMA.
Þessum nýja kvöldskóla var ýtt úr vör núna á haustönn og er hann nú kominn í fullan gang. Þetta er tveggja anna nám sem er þannig byggt upp að á hvorri önn eru tvær átta vikna námslotur. Í hvorri námslotu verða kenndir fjórir áfangar, þar af þrír verklegir og einn bóklegur. Í fyrstu námslotu, sem stendur fram í seinnihluta október, kenna tveir kennarar við listnáms- og hönnunarbraut, Björg Eiríksdóttir og Véronique Legros. Kennt er þrjá daga vikunnar, mánudaga, þriðjudaga og miðvikudaga kl. 16:15-20:55.
Þegar litið var inn í tíma á dögunum var Véronique að miðla úr viskubrunni sínum til nemenda. Í náminu eru bæði konur og karlar en það vildi svo til að í þessari kennslustund voru einungis konur mættar til leiks.
Lísa Björk Gunnarsdóttir og Ingibjörg Ósk Pétursdóttir – Imma eru hæstánægðar með námið það sem af er. Báðar sóttu þær á sínum tíma nám í myndlist hjá Guðmundi Ármanni og Bryndísi Arnardóttur – Billu í Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar og það kveikti hjá þeim neistann til listsköpunar. Auk fjölmargra annarra vinna þær að list sinni á sameiginlegri vinnustofu í miðbæ Akureyrar.
Lísa Björk segir að þegar hún sá þetta nám í VMA auglýst hafi hún ekki hugsað sig lengi um, þarna hafi komið kærkomið tækifæri til þess að bæta við þekkinguna og fara dýpra í hlutina.
„Þetta gefur okkur kost á því að fara dýpra í mynduppbyggingu og litafræði, svo dæmi séu tekin. Mér finnst þetta allt áhugavert, hausinn er á fullu allan tímann í kennslustundunum og áður en maður veit af hafa þær flogið frá okkur,“ segir Imma, sem er nú komin í VMA í annað skipti því hún útskrifaðist af félagsfræðibraut skólans árið 1997.