Hef lengi stefnt á fatahönnun
Akureyringurinn Hrafnhildur Ósk Birgisdóttir er sautján ára gömul og á öðru ári á textílsviði listnámsbrautar VMA. Hún segir að í raun hafi ekkert annað komið til greina en að fara í þetta nám. „Ég hef klárlega orðið fyrir áhrifum af fólki í minni fjölskyldu. Ragnheiður Þórsdóttir, kennari hér í VMA og veflistakona, er systir mömmu, Kristínar Þallar Þórsdóttur, sem aftur er starfandi klæðskeri og brúðarkjólameistari. Og Guðbjörg Þóra, frænka mín, var einnig hér á textílbraut í VMA og útskrifaðist í fyrra. Ég hef alltaf litið upp til Guðbjargar og það má kannski segja að ég hafi mest fengið hugmyndina frá henni að hanna föt,“ segir Hrafnhildur Ósk.
„Frá því ég man eftir mér hef ég teiknað og hannað föt. Ég á fullt af myndum heima sem ég teiknaði þegar ég var lítil og það er virkilega gaman að kíkka á þær núna mörgum árum síðar. Það er erfitt að útskýra hvað er svona heillandi við þetta. Maður týnir sér í þessum heimi, einn út fyrir sig, og gleymir stund og stað,“ segir Hrafnhildur Ósk.
Hún segist horfa mikið á sjónvarp og skoða myndir og myndbönd á netinu og þannig fái hún fullt af hugmyndum að kjólum og öðrum fatnaði. „Ég reyni að gera aldrei eins og fyrirmyndirnar sem ég sé í sjónvarpinu en blanda hugmyndunum mínum saman við þær. Það er mjög gaman að fylgjast með tískustraumunum á hverjum tíma en mér sýnist að í raun sé allt í tísku núna, líklega hefur hún aldrei verið eins fjölbreytt og nú. Það er allt til; pokabuxur og þröngar buxur, stuttir toppar og langir toppar. Þetta er bara frábært því svona fjölbreytt tíska gefur öllum möguleika á að finna eitthvað við sitt hæfi. Sjálf kýs ég fjölbreyttan klæðnað. Ég er í íþróttafötum suma daga en aðra daga reyni ég að vera í fínni fötum. Ég hugsa stundum um þetta en aðra daga nenni ég ekkert að spá í klæðnaðinn.“
Í vor verður Hrafnhildur Ósk hálfnuð í námi sínu í VMA. Engu að síður er hún þegar farin að huga að framhaldinu eftir að náminu í VMA lýkur. „Ég fer alveg örugglega í háskólanám til þess að verða fatahönnuður og eins og er gæti það að öllum líkindum orðið í háskóla í Mílanó á Ítalíu. Minn draumur er að hanna mína eigin fatalínu. Við Íslendingar erum að gera það gott á þessu sviði. Til dæmis var frænka mín, sem á sínum tíma var í VMA og fór síðan í fatahönnun, nýverið valin í hóp bestu hönnuða á þessu sviði í heiminum,“ segir Hrafnhildur Ósk