Heimilisfræðin heillar
Heimilisfræðitími að morgni dags í húsnæði matvælabrautar. Nemendur á öðru ári starfsbrautar VMA undir stjórn kennaranna Sigrúnar Fanneyjar Sigmarsdóttur og Ingu Dísar Árnadóttur tileinka sér eldamennsku frá ýmsum hliðum. Verkefni dagsins er í fyrsta lagi að búa til ljúffenga íslenska kjötsúpu, í annan stað að baka næringarríkar og hollar bollur með súpunni og í þriðja lagi að baka hjónabandssælu. Að læra undirstöðuatriðin í eldamennsku nýtist öllum nemendum vel á lífsleiðinni og það má ljóst vera að nemendum finnst hreint ekki leiðinlegt að töfra fram dýrindis rétti í eldhúsinu.
Í nemendahópnum eru Jón Karl Steinþórsson og Elísabet Magnea Sveinsdóttir. Þau búa bæði á Akureyri en Jón Karl bjó áður á Árskógsströnd og var í Árskógarskóla.
Jóni Karli og Elísabet Magneu líkar mjög vel í skólanum og þau eru sammála um að stóri kosturinn við hann sé hversu margir mismunandi valáfangar séu í boði. Þetta þýði að nemendur geti valið þau fög sem falli að þeirra áhugamálum. Jón Karl segir að heimilisfræðitímarnir hafi kveikt hjá sér áhuga á að læra meira í matreiðslu en Elísabet Magnea segist hallast frekar að listnámi, hún taki valáfanga á listnámsbraut og hafi frekari áhuga á að styrkja sig á því sviði.
Við lok heimilisfræðitímans setjast nemendur niður og gæða sér á afrakstri dagsins. Vel þykir hafa tekist til, um það eru nemendur og kennarar sammála – sem og sérlegur boðsgestur dagsins, Jóhannes Árnason áfangastjóri.