Heimsókn frá Fjerritslev Gymnasium í Danmörku
Alla þessa viku hafa átta nemendur og tveir kennarar frá Fjerritslev Gymnasium á Norður-Jótlandi í Danmörku verið í heimsókn á Akureyri. Heimsóknin er liður í samstarfsverkefni Fjerritslev Gymnasium, VMA og Oppdal videregående skole í Noregi þar sem íþróttir og útivist af ýmsum toga er rauði þráðurinn.
Liður í verkefninu er að nemendur frá skólunum þremur skiptast á heimsóknum og er heimsókn dönsku nemendanna sú síðasta í verkefninu, sem hófst fyrir um tveimur árum og er styrkt af Erasmus+ styrkjaáætlun ESB fyrir mennta-, íþrótta- og æskulýðsmál. Nemendur og kennarar á íþrótta- og lýðheilsubraut hafa tekið þátt í verkefninu af hálfu VMA og sl. vor fóru hópar frá skólanum í heimsókn til samstarfsskólanna í Danmörku og Noregi.
Hver skóli í verkefninu er með samstarfsaðila og er Knattspyrnufélag Akureyrar í samstarfi við VMA í þessu verkefni.
Dönsku framhaldsskólakrakkarnir og kennarar þeirra komu til Akureyrar sl. laugardag og fljúga heim til Danmerkur nk. sunnudag. Dagskráin hefur verið þéttskipuð alla vikuna. Auk kynninga og kennslustunda í VMA hafa dönsku gestirnir m.a. farið í KA-heimilið og kynnst starfinu þar, fengið kynningu á íþróttabænum Akureyri, farið í sund og gönguferðir í nágrenni Akureyrar, kíkt í Skautahöllina o.fl.
Nemendurnir átta frá Fjerritslev eru á aldrinum 17 til 20 ára og eru á mismunadi námsbrautum í skólanum en allir taka nemendurnir þátt í útivist af ýmsum toga. Því fengu VMA-nemendur að kynnast þegar þeir sóttu Fjerritslev heim.
Jakob Kortegård Becher, annar tveggja kennara með hópnum, segir að áherslan í þessu verkefni sé á hvernig íþróttir og útvist geti þroskað og eflt ungt fólk í daglegu lífi og um leið að efla þrek þeirra og heilsu. Jakob segir að í senn sé ánægjulegt og lærdómsríkt fyrir nemendur að kynnast ólíkum áherslum og menningu í löndunum þremur. Um leið sé ánægulegt að út úr þessum heimsóknum myndist persónuleg tengsl nemendanna í löndunum þremur. Jakob segir að nemendurnir hafi aldrei áður komið til Íslands og upplifun þeirra af landi og þjóð sé sterk.