Hollendingar í heimsókn
Í gær komu góðir gestir frá Hollandi í heimsókn í VMA og kynntu sér skólastarfið frá ýmsum hliðum. Þessi sautján manna hópur hefur verið á landinu þessa viku og var fyrrihluta vikunnar í Reykjavík en heimsótti VMA og Hlíðarskóla á Akureyri í gær. Í dag liggur leiðin, landleiðina, aftur til Reykjavíkur og er ætlunin að sækja heim Grunnskóla Húnaþings vestra á Hvammstanga. Síðan verður haldið áfram til höfuðborgarinnar og snýr hópurinn til Hollands á morgun, laugardag.
Þessir hollensku gestir tengjast skólastarfi víða í Hollandi á einn eða annan hátt, hvort sem er kennslu eða stoðþjónustu í skólum.
Í VMA í gær tóku Dagný Hulda Valbergsdóttir, sem heldur utan um erlend samskipti í VMA, Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari og Helga Jónasdóttir aðstoðarskólameistari á móti gestunum og fóru með þeim um skólann. Síðan voru kynningar á skólastarfinu í VMA. Jóhanna Björk Sveinbjörnsdóttir sagði frá íslenskubrúnni, námi í skólanum fyrir nemendur af erlendum uppruna, námsráðgjafarnir Helga Júlíusdóttir og Svava Hrönn Magnúsdóttir sögðu frá starfi sínu og einnig störfum forvarnafulltrúa og viðburðastjóra í skólanum og hvað felst í því að vera heilsueflandi framhaldsskóli. Loks sögðu Bryndís Indíana Stefánsdóttir og Hafdís Bjarnadóttir frá kennslunni á starfs- og sérnámsbrautum skólans. Einnig sýndu þær aðstöðuna á D-gangi skólans, þar sem meginþungi skólastarfs þessara tveggja brauta fer fram.
VMA þakkar þessa góðu heimsókn frá Hollandi.