Heimsóknin í höfuðstöðvar SÞ stendur upp úr
„Þetta var mjög skemmtilegt, eitthvað sem maður gerir bara einu sinni á ævinni,“ segir Margrét Steinunn Benediktsdóttir, nemandi á félagsfræðabraut í VMA, sem ásamt Úlfi Logasyni , nemanda á listnáms- og hönnunarbraut VMA, var boðið í ferð til Bandaríkjanna og Kanada í júlí sl. á vegum Oddfellowreglunnar. Boðsferðin var hluti af verkefninu „United Nations Educational Pilgrimage for Youth“ sem Oddfellowreglan um heim allan hefur til fjölda ára staðið fyrir. Baldvin Valdemarsson var fararstjóri í þessari ferð og VMA-nemum til halds og trausts.
Umrætt verkefni hefur verið í gangi síðan árið 1949. Fyrstu árin var bandarískum ungmennum á síðasta ári í framhaldsskóla boðið í slíkar kynnisferðir en síðar náði verkefnið einnig til annarra landa þar sem Oddfellowreglan starfar, þar á meðað Íslands, og er þetta fjórða árið sem Ísland var með í verkefninu og voru að þessu sinni valdir nemendur úr VMA til að vera fulltrúar Íslands.
Markmiðið með „United Nations Educational Pilgrimage for Youth“ er að fá ungt fólk til að kynna sér starfsemi Sameinuðu þjóðanna og skapa grundvöll til skoðanaskipta um menntun, stjórnmál og alþjóðleg samskipti, bjóða þátttakendum að skoða merka staði í Bandaríkjunum og Kanada, hvetja til jákvæðrar þátttöku í félagsmálum og koma á vináttutengslum milli þátttakenda.
„Ég hugsa að heimsóknin í höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna standi upp úr. Það var virkilega gaman að koma þangað og skoða þessa byggingu og fræðast um það sem þar fer fram. Mér finnst vera unnið að mörgum mjög góðum málum á vegum Sameinuðu þjóðanna og það væri áhugavert að starfa á þeim vettvangi í framtíðinni,“ segir Margrét Steinunn, en hún hafði fyrir margt löngu ákveðið að fara í stjórnmálafræði að loknu stúdentsprófi. „Ég er ennþá ákveðnari í því eftir þessa ferð og ég gæti vel hugsað mér að taka það nám í útlöndum, t.d. í Skandinavíu,“ bætir hún við.
„Við sáum líka m.a. þann stað í Philadelphiu þar sem sjálfstæðisyfirlýsing Bandaríkjanna var undirrituð og einnig fórum við yfir til Ottawa í Kanada og skoðuðum þar stjórnarbyggingar og sáum Niagara fossana Kanadamegin. Mér fannst mjög áhugavert að koma ti Kanada. Þegar á heildina er litið var þetta mjög skemmtileg ferð. Fyrirfram hafði ég miklar væntingar til ferðarinnar og hún stóð undir þeim. Við sáum margt og kynntumst krökkum víða að úr heiminum, sem var mjög skemmtilegt,“ segir Margrét Steinunn og vill koma á framfæri þakklæti til Oddfellowreglunnar fyrir að hafa fengið tækifæri til þess að taka þátt í þessari áhugaverðu sumarferð til Norður-Ameríku.