Hestakona í hársnyrtinámi
„Þetta er dálítið erfitt,“ sagði Iða Hrund Hauksdóttir, nemandi á hársnyrtibraut, þar sem hún sat yfir glósum í líffæra- og lífeðlisfræði í Gryfjunni.
Iða Hrund kemur frá bænum Holti í Breiðdalshreppi, sem er raunar inni í þorpinu á Breiðdalsvík. Hún segist hafa tekið tvær fyrstu annirnar í hársnyrtináminu í Fjölbrautaskóla Suðurnesja í Keflavík en síðan hafi hún tekið þriðju önnina á liðinni haustönn í VMA. Á þessari önn er Iða Hrund síðan í ýmsum bóklegum fögum sem hún þarf að klára til þess að ljúka náminu af hársnyrtibraut – þar á meðal er líffæra- og lífeðlisfræði.
Til þess að geta lokið sveinsprófi í hársnyrtiiðn þurfa nemendur að hafa lokið 72ja vikna námssamningi hjá meistara. Iða Hrund segir að það reynist mörgum nemendum því miður mjög erfitt að komast á samning. Hún hafi víða reynt að komast á samning, meðal annars á Austurlandi, en ekki tekist, enn sem komið er. „Það verður að segjast eins og er að mörgum nemendum gengur því miður illa á komast á samning sem er mikil synd því þetta er mjög skemmtilegt og áhugavert fag,“ segir Iða Hrund.
„Ef þetta gengur ekki upp með hársnyrtiiðnina fer ég bara í hestana,“ segir Iða Hrund og brosir en hún er mikil hestakona, á reyndar 12 hesta austur í Breiðdal. „Pabbi sér um hestana í vetur en ég stefni að því að læra tamningar næsta sumar og prófa að temja,“ segir hársnyrtineminn og hestakonan Iða Hrund Hauksdóttir.