Hin nýja íþrótta- og lýðheilsubraut fer vel af stað
Í mörg undanfarin ár hefur verið starfrækt tveggja ára íþróttabraut við VMA. Margir þeirra nemenda sem hafa lokið námi á brautinni hafa síðan bætt við sig einingum á öðrum brautum til þess að ljúka stúdentsprófi. Frá og með þessari önn er boðið upp á nýja námsbraut á grunni gömlu íþróttabrautarinnar; íþrótta- og lýðheilsubraut, sem er þriggja ára námsbraut til stúdentsprófs. Brautin fékk fljúgandi start því rösklega 40 nemendur eru nú skráðir á fyrsta ár.
„Breytingin er sú að nú erum við að gera þessa braut að námsbraut til stúdentsprófs. Þetta þýðir að þeir nemendur sem skrá sig á brautina ljúka sínu námi á þremur árum, en í gamla kerfinu var það svo að eftir tveggja ára íþróttabraut þurftu nemendur sem vildu taka stúdentspróf að taka áfanga og útskrifast með stúdentspróf af öðrum námsbrautum. Þessi nýja braut er ekki bara hugsuð fyrir nemendur sem stefna á íþróttafræði eða eitthvað slíkt, hún er líka hugsuð sem góður grunnur fyrir hverskyns nám innan heilsugeirans, t.d. hjúkrunarfræði, sjúkraþjálfun eða jafnvel læknisfræði. Nemendur á þessari nýju braut hafa möguleika á umtalsverðu vali á áföngum út frá því hvaða leið þeir hyggjast fara í framhaldinu.
Ég tel að tilkoma þessarar nýju námsbrautar hafi verið mjög mikilvægt og jákvætt skref. Hinrik Þórhallsson, samkennari minn, hafði lengi þá skoðun að þegar tekið yrði það skref sem nú er búið að taka myndi brautin stækka til mikilla muna. Það er nákvæmlega það sem hefur gerst. Við erum núna með 42 nemendur á fyrsta ári, þar af 26 nýnema. Þetta er ríflega helmings fjölgun nemenda á fyrsta ári frá því sem var á gömlu íþróttabrautinni. Við kennararnir erum sammála um að sá hópur nýnema sem við vorum að fá inn í skólann núna, ´99 árgangurinn, er mjög sterkur, bæði í íþróttum og námslega,“ segir Jóhann Gunnar Jóhannsson, fagstjóri íþróttagreina í VMA.
Um framhaldið segist Jóhann Gunnar nokkuð viss um að þessi nýja íþrótta- og lýðheilsubraut verði vinsæl og eftir tvö ár megi búast við að nemendur á þessari braut verði yfir hundrað talsins. Verði það raunin sé því ekki að leyna að nýtt íþróttahús á lóð VMA sé aðkallandi, bæði fyrir almenna íþróttakennslu í skólanum og aukið umfang íþrótta- og lýðheilsubrautar.
Jóhann Gunnar telur að það yrði klárlega mikill styrkur fyrir hina nýju íþrótta- og lýðheilsubraut ef komið yrði á fót íþróttakennarabraut við Háskólann á Akureyri, sem lengi hefur verið rætt um. Hann segir að Akureyri sé án nokkurs vafa rétti staðurinn fyrir slíkt nám, enda íþróttaaðstaða hér óvíða betri og mikill fjöldi íþróttagreina sé stundaður í bænum. "Ég er mjög spenntur fyrir því ef þetta gæti orðið að veruleika," segir Jóhann Gunnar Jóhannsson.