Fara í efni

Hjartað í skólanum

Þær standa vaktina á bókasafninu - Hanna Þórey Guðmundsdóttir (t.v.) og Dagný Hulda Valbergsdóttir.
Þær standa vaktina á bókasafninu - Hanna Þórey Guðmundsdóttir (t.v.) og Dagný Hulda Valbergsdóttir.

Það er gömul saga og ný að bókasafnið er hjartað í skólanum og þar standa vaktina Hanna Þórey Guðmundsdóttir, sem veitir safninu forstöðu, og Dagný Hulda Valbergsdóttir, sem auk þess að starfa á bókasafninu hefur erlend samskipti skólans á sinni könnu.

Í eðli sínu hafa bókasöfn tekið miklum breytingum á tímum upplýsinga- og stafrænnar byltingar og það á líka við um bókasafn VMA. En eftir sem áður hefur safnið skyldum að gegna í þágu nemenda og kennara skólans, sem þangað leita í ríkum mæli. Á því hefur engin breyting orðið. Hanna Þórey og Dagný Hulda segja að nemendur séu duglegir að sækja bókasafnið heim, ekki síst nýti þeir eyður í stundaskrám til verkefnavinnu eða lesturs. Af nægu er að taka því bækurnar á safninu skipta þúsundum og til viðbótar er hægt að skoða fjöldann allan af tímaritum og blöðum. Hér er hægt að sjá safnkost bókasafns VMA.

Fastur liður í starfi bókasafnsins á haustönn er safnkynning fyrir nýnema, hún hófst í síðustu viku. Nýnemahópur hvers umsjónarkennara heimsækir safnið og fær kynningu á því, hvaða þjónustu það hafi upp á bjóða og hvernig starfsmenn safnsins geta vísað nemendum veginn, t.d. við heimildaöflun og verkefnavinnu.

En það eru ekki bara bækur sem nemendur geta fengið lánaðar á bókasafninu. Þar er hægt að fá lánuð hleðslutæki fyrir allar fartölvur, nemendur geta fengið farsímana sína hlaðna, bókasafnið lánar nemendum fartölvur, reiknivélar, teikniborð fyrir grunnteikningu, heyrnartól, hátalara, mýs, myndavélar og margt fleira. Lán á þessum hlutum er þó fyrst hugsað til þess að hjálpa nemendum ef þeir hafa gleymt þeim heima hjá sér en ekki sem varanlegt lán fyrir alla önnina eða veturinn. Blýantar eða önnur skriffæri eru ekki til útláns.

Hanna og Dagný eru öflugar í því að miðla hinum ýmsu upplýsingum um bókasafnið á Instagramsíðu þess -  bokasafnvma

Eins og kom fram hér á heimasíðunni var gula deginum, 10. september sl., alþjóðlegum forvarnadegi gegn sjálfsvígum, minnst í VMA. Þar á meðal á bókasafninu. Hanna Þórey og Dagný tóku fram fjölda bóka á safninu sem hafa gullitaðar kápur og einnig bækur þar sem fjallað er um forvarnir gegn sjálfsvígum. Hér er Dagný Hulda á gula deginum og einnig má sjá þær bækur sem stillt var upp í tilefni dagsins.