Hlakka til þess á hverjum degi að fara í skólann
Það er aldrei of seint að skella sér í nám, það er gömul saga og ný. Þórhalla Kolbrún Steinarsdóttir (Kolla) ákvað að taka skrefið í byrjun þessa árs, hún innritaði sig á sjúkraliðabraut VMA og er nú á annarri önn í náminu og segist alsæl með að hafa drifið sig aftur í skóla.
Kolbrún er 36 ára gömul, fædd 1982, og móðir þriggja barna sem eru tæplega tveggja ára, fjögurra ára og tíu ára gömul. Það er í því í mörg horn að líta með fullu námi en með góðri skipulagningu hefst þetta allt saman.
Hún er fædd og uppalin á Bakkafirði. Flutti þaðan nítján ára gömul til Reykjavíkur og langaði til þess að breyta til og prófa eitthvað nýtt. Hún hafði verið í tvo vetur í Laugaskóla en frekara nám vék fyrir vinnu, í bili a.m.k. „Á þessum tíma átti ég ekki mikla samleið með skólakerfinu. Ég átti erfitt með nám og fann mig hreinlega ekki í skóla,“ segir Kolla. Hún segist þó hafa innritað sig á listnámsbraut í Iðnskólanum í Reykjavík en staldrað stutt við þar. Tók síðar bókhaldsnám í kvöldskóla og fór aftur í Iðnskólann Reykjavík veturinn 2007-2008 í tækniteiknun. „Ég náði ekki að klára það nám vegna þess að á þessum tíma eignaðist ég elsta barnið okkar.“
Árið 2012 flutti fjölskyldan til Akureyrar og Kolla fór þá að vinna á leikskóla. Hún segir að innst inni hafi hún haft löngun til þess að fara í nám. Hún átti viðtal við náms- og starfsráðgjafa hjá SÍMEY og lýsti áhuga sínum á að læra eitthvað tengt umönnun. Niðurstaðan var tveggja ára nám hjá SÍMEY, leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú, og lauk Kolla því vorið 2017. „Mér gekk ágætlega í því námi og það má segja að með því hafi ég ýtt skólagrýlunni til hliðar. Þetta nám kveikti hjá mér löngun til þess að læra meira. Ég fékk ábendingu um að skoða sjúkraliðabrautina í VMA, nám sem ég hafði hreinlega ekki gefið gaum. Ég byrjaði á síðustu vorönn og er því núna á annarri önn. Takmarkið er að ljúka þessu námi og ljúka jafnframt stúdentsprófi. Einingar sem ég hafði tekið áður nýtast mér til stúdentspróf og því er ég núna meira í faggreinum í sjúkraliðanáminu,“ segir Kolla og fer ekki leynt með að hún sé alsæl með að hafa valið þessa námsleið. „Ég fann mig strax í sjúkraliðanáminu og mér gengur ágætlega. Ég er í þessu námi af einlægum áhuga, þetta er fyrst og fremst skemmtilegt og kennararnir gera sannarlega sitt til þess að gera það áhugavert. Þrátt fyrir að við nemendurnir séum á ýmsum aldri nær nemendahópurinn ótrúlega vel saman.“
Kolla segist ekki í nokkrum vafa um að núna sé hún á réttri hillu, staðreyndin sé sú að þrátt fyrir ýmis hliðarspor hafi hún alltaf haft löngun til þess að læra eitthvað sem tengist umönnun fólks. „Ég vann á Lögmannshlíð með skólanum sl. vor og einnig sl. sumar. Það átti vel við mig. Það er mjög gefandi að hjálpa öðrum.“
Kolla er nú komin á annað þrep í sjúkraliðanáminu og það ásamt því að skila lágmarksfjölda eininga gerir það að verkum að námið er lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Hún segir að námslánin geri henni kleift að vera í fullu námi. Hún segist reyna að nýta eyður í stundatöflunni til þess að læra í skólanum því þegar heim komi þurfi að sinna fjölskyldunni og heimilisstörfum. „Maðurinn minn er búinn að vinna fjögur á daginn og því náum við í sameiningu að púsla þessu saman og við fáum líka hjálp úr fjölskyldunni ef á þarf að halda. Ég reyni að nýta laugardagsmorgnana til þess að læra. Fer þá oft á Amtsbókasafnið til þess að lesa og/eða gera verkefni. Vissulega þarf töluverðan sjálfsaga til þess að láta þetta ganga upp. Ég hafði miklað þetta fyrir mér en það er ekki eins erfitt að koma þessu heim og saman og ég bjóst við. Það skiptir auðvitað öllu máli að þetta er svo gaman, ég hlakka til þess á hverjum degi að fara í skólann,“ segir Þórhalla Kolbrún Steinarsdóttir.