Höfðingleg gjöf Sindra og Kraftbíla til námsbrautar í bifvélavirkjun
Ari B. Fossdal, sölumaður hjá Johan Rönning/Sindra á Akureyri, Björgvin Víðir Arnþórsson, sölumaður hjá Sindra á Akureyri, og Arnþór Örlygsson frá Kraftbílum í Hörgársveit, komu heldur betur færandi hendi í VMA í gær. Þeir afhentu námsbraut í bifvélavirkjun að gjöf verkfæri í öllum regnbogans litum fyrir hönd Sindra og Kraftbíla.
Ásgeir V. Bragason, kennari í bifvélavirkjun, segir að skólann hafi skort mjög verkfæri til þess að geta kennt verklega kennslu þrettán nemenda, sem nú stunda nám í bifvélavirkjun, og því sé þessi gjöf þessara tveggja fyrirtækja eins og himnasending. Hann segist nánast vera orðlaus yfir þessum rausnarskap því þegar hann leitaði eftir stuðningi þessara fyrirtækja við námsbrautina hafi hann mögulega getað búist við að þau gætu séð sér fært að styðja hana um tíu prósent af því sem síðan hafi verið raunin. Þetta sé því ótrúlega kærkomin gjöf og hann eigi vart orð til þess að þakka fyrirtækjunum tveimur fyrir stuðninginn. Ásgeir sagði að hann og nemendur hans hefðu sett óskalista á blað og það megi í raun segja að hann hafi nú verið uppfylltur.
Eins og þessar myndir bera með sér, sem teknar voru við afhendingu gjafarinnar í gær, er um að ræða tvo verkfæraskápa fulla af verkfærum og fjölmargt annað. Kraftbílar gáfu annan Toptul verkfæraskápinn og öll DeWalt verkfærin en Sindri gaf hinn verkfæraskápinn og önnur verkfæri.
Sem fyrr segir eru þrettán nemendur í bifvélavirkjun í VMA. Þeir eru nú á sinni fjórðu önn í VMA. Höfðu lokið við grunndeild málmiðnaðar sem er áskilið til þess að læra bifvélavirkjun. Síðan tekur þetta fagnám við og eru nemendurnir á sinni annarri önn í því. Eftir þessa vorönn eru eftir tvær annir í náminu. Til þess að komast á sjöttu og síðustu önn þurfa nemendur að hafa lokið við áskilda starfsreynslu sem er skráð í ferilbók.
Auk Ásgeirs kennara í bifvélavirkjun þakkaði Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari fulltrúum fyrirtækjanna fyrir höfðinglega gjöf sem hún sagði vera gott dæmi um afar mikilvægt samstarf atvinnulífs og skóla. Ómetanlegt væri fyrir VMA að eiga að slíka bakhjarla sem sýni honum velvild og stuðning með þessum hætti. Bætti Sigríður Huld við að þetta væri fyrsta afmælisgjöfin sem skólinn fengi á 40 ára afmælinu og hún væri sannarlega ekki af verri endanum.