Höfum ánægju af því að vinna með ungu fólki
Þær Una Aðalbjörg Sigurliðadóttir og Valgerður K. Guðlaugsdóttir hafa lengi staðið vaktina á skrifstofu VMA. Una hóf þar störf árið 1985, ári eftir að skólinn var settur á stofn, og Valgerður hóf störf þremur árum síðar, árið 1988. Þær stöllur eru í miklum samskiptum við nemendur, enda sjá þær um að veita þeim þær upplýsingar sem þeir leita eftir um allt milli himins og jarðar.
„Já, ég er búinn að vera lengi hér,“ segir Una Aðalbjörg. „Ég byrjaði þann 1. ágúst árið 1985 í gamla Iðnskólanum, þar sem Icelandair hótel er núna, og við fluttumst síðan hingað upp á Eyrarlandsholtið árið 1987. „Ég hef alltaf haft gaman af því að umgangast ungt fólk, það heldur manni ungum,“ segir Una og bætir við að almennt séu nemendur kurteisir og þægilegir í umgengni. Undir þetta tekur Valgerður. „Þetta er mjög fjölbreytt starf, alveg ótrúlega fjölbreytt. Ég hef mikla ánægju af því að umgangast ungt fólk. Annars væri ég sennilega ekki búin að vera svona lengi í þessu,“ segir hún og getur þess að í samanburði við fyrri tíð séu núna mun fleiri eldri nemendur í skólanum, sem ekki hvað síst helgist af því að svokölluð öldungadeild sé ekki lengur starfrækt. „Og foreldrar eru mun virkari í skólastarfinu en hér á árum áður,“ bætir Una við.
Sem fyrr segir eru þær Una og Valgerður í miklum samskiptum við nemendur. Um þeirra hendur fara til dæmis vottorð vegna veikinda, þær taka á móti veikindatilkynningum frá nemendum, gefa út vottorð vegna húsaleigubóta fyrir utanbæjarnemendur, annast ljósritun af ýmsum toga fyrir kennara, þ.m.t. próf, fyrir svo utan það að vera til staðar og svara spurningum og greiða úr ýmsum málum er upp koma hjá nemendum. „Þegar við byrjuðum hér höfðum við ekki aðgang að tölvum. Breytingin hefur því verið ótrúlega mikil og hröð. Og ég minnist þess að á þessum fyrstu árum þurftum við oft að skrifa upp á pappíra til þess að nemendur gætu leyst út skyldusparnaðinn sinn,“ segir Valgerður.
Og báðar eru þær sammála um að starfsandinn í VMA sé og hafi alltaf verið einstaklega góður. „Það skiptir bara gríðarlega miklu máli,“ segir Una.