Hollvinasamtök VMA gefa skólanum iMAC margmiðlunartölvu
Í móttöku sem VMA efndi til í Gryfjunni sl. laugardag í tilefni af 30 ára afmæli skólans bárust honum ýmsar góðar gjafir. Ein þeirra er iMAC margmiðlunartölva sem Hollvinasamtök VMA færðu skólanum að gjöf.
Hollvinasamtökin voru stofnuð fyrir um tveimur árum og er hlutverk þeirra að efla kaup á tækjabúnaði við VMA og auka og styrkja tengsl skólans við fyrirtæki og stofnanir. Einnig að efla tengsl við samfélagið, útskrifaða nemendur skólans og aðra þá er bera hag hans fyrir brjósti. Tekjur samtakanna byggjast á frjálsum framlögum félagsmanna eða annarra. Hér eru nánari upplýsingar um Hollvinasamtök VMA.
Tveir af stjórnarmönnum í Hollvinasamtökum VMA, Svavar Sigmundsson, verkefnastjóri í Slippnum, og Sigríður Huld Jónsdóttir, aðstoðarskólameistari, afhentu Hjalta Jóni Sveinssyni skólameistara en formaður samtakanna, Hildur Eir Bolladóttir, prestur í Akureyrarkirkju, var fjarverandi.
Í gjafabréfi sem fylgdi gjöfinni og er undirritað af Hildi Eir segir:
„Á 30 ára afmælishátíð skólans 11. október 2014 afhenda Hollvinasamtök VMA skólanum iMAC margmiðlunartölvu að gjöf. Er það ósk stjórnar Hollvinasamtakanna að vélin nýtist nemendum vel í allri tölvumyndvinnslu og námi við skólann. Óskað er eftir því að vélin verði staðsett þannig að nemendur geti haft aðgang að henni óháð því námi sem þau eru skráð í. Þessi gjöf er fyrsta gjöfin sem Hollvinasamtök VMA gefa skólanum. Megi hún nýtast vel.“
Í móttökunni sl. laugardag var Hilmar Friðjónsson með myndavélina á lofti eins og sjá má hér.