Horft til heimsmarkmiða
Hver eru Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun?
Þau voru samþykkt af fulltrúum aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna árið 2015. Heimsmarkmiðin eru sautján talsins og gilda til ársins 2030. Þau mynda jafnvægi milli þriggja stoða sjálfbærrar þróunar, efnahagslegra, félagslegra og umhverfislegra. Horft er til mannkyns, jarðarinnar, hagsældar, friðar og samstarfs og er aðal markmiðið að engir einstaklingar eða hópar verði skildir eftir.
Í október nk. verður efnt til þemaviku í VMA þar sem sjónum verður beint að þremur af þessum sautján markmiðum:
1. Engin fátækt
2. Ekkert hungur
3. Hreint vatn
Í náminu í skólanum þessa daga verður á ýmsan hátt horft til þessara þriggja heimsmarkmiða.
Fyrr í þessum mánuði var efnt til fræðslunámskeiðs fyrir kennara í Reykjavík um heimsmarkmiðin. Námskeiðið sóttu af hálfu VMA Valgerður Dögg Oddudóttir Jónsdóttir og Sigrún Fanney Sigmarsdóttir. Valgerður Dögg segir á námskeiðinu hafi komið fram fjölmargt áhugavert sem muni nýtast mjög vel í áföngum í menningarlæsi en þar er m.a. horft til mannréttinda. Einnig muni námskeiðið nýtast sérlega vel í áðurnefndri þemaviku um heimsmarkmiðið í VMA í október nk.