Á hraðbraut í rafiðndeild VMA
Núna á haustönn er í fyrsta skipti boðið upp á svokallaða hraðbraut í rafiðndeild VMA. Að loknum fyrstu tveimur önnunum í grunndeild eru nú tíu nemendur sem taka allt efni þriðju og fjórðu annar á þessari önn – sem sagt efni tveggja anna samþjappað á eina önn. Það þýðir, gangi allt upp, að þessi nemendahópur lýkur grunndeild rafiðna í lok þessarar annar.
Óskar Ingi Sigurðsson, brautarstjóri rafiðngreina í VMA, segir að hér sé um að ræða tilraunaverkefni sem hafi aldrei áður verið reynt í VMA en hafi gefist vel í Tækniskólanum í Reykjavík. Þeir tíu nemendur sem séu í þessum fyrsta nemendahópi á hraðbraut séu töluvert eldri en bróðurpartur nemenda í grunndeild og hafi annað hvort lokið námi til stúdentsprófs og/eða séu með víðtæka reynslu úr atvinnulífinu.
„Vð munum í annarlok gera upp hvernig þetta kemur út. Hér er um mikið og krefjandi nám að ræða fyrir þessa nemendur enda taka þeir tveggja anna nám á einni önn. Nemendur eru með um fimmtíu tíma í sinni stundatöflu og eru tvo daga í viku í skólanum til hálf sjö á kvöldin. Með því að stíga þetta skref erum við fara inn á nýja braut og jafnframt er ánægjulegt að geta orðið við óskum þessara nemenda, “ segir Óskar Ingi.
Að lokinni þessari önn eiga nemendur á hraðbraut eftir annað hvort tvær eða þrjár annir til sveinsprófs, tvær annir fari þeir samningsleið en þrjár annir velji þeir skólaleið.
Sem fyrr er bekkurinn þétt setinn í rafiðndeild VMA og segir Óskar Ingi brautarstjóri að hún sé í raun full. „Í heildina eru nemendur hjá okkur á annað hundrað og önnin hefur farið vel af stað. Við erum með 36 fyrsta árs nema, rösklega helmingur þeirra nemendur sem koma beint úr grunnskóla. Við erum því með þrjá nemendahópa í grunndeildinni. Og það er ánægjulegt að fleiri stúlkur eru núna í grunndeildinni en undanfarin ár,“ segir Óskar Ingi Sigurðsson.