Hring eftir hring
„Ég hef gaman af því að vinna með form og þessar myndir urðu til út frá því. Nafnið Hring eftir hring kom síðan síðar. Ég var ekkert mikið gefin fyrir bleika litinn en hann hefur síðasta árið komið meira inn í myndina – og mér finnst bleiki og guli liturinn fara vel saman, segir Aðalheiður Jóna Kolbeins Liljudóttir, nemandi á listnáms- og hönnunarbraut, sem nú sýnir tvær vatnslitamyndir í „Gallerí austurveggur“ – á veggnum gegnt austurinngangi skólans.
Aðalheiður hóf nám í VMA á haustdögum 2022 og er því núna á sínu þriðja og síðasta ári til stúdentsprófs – hún lýkur námi í maí nk. Þegar hún hóf námið fyrir tæpum þremur árum fór hún beint á listnáms- og hönnunarbrautina og hafði síðan alltaf í huga að fara yfir á fjölgreinabraut og tvinna hana saman við tónlistarnám sitt í Tónlistarskólanum á Akureyri. En það breyttist. Það kom Aðalheiði skemmtilega á óvart hversu vel hún fann sig í myndlistinni – ekki síst vegna þess að í grunnskóla var myndlistin ekkert sérstakt áhugamál - og því var stefnan tekin á að ljúka námi af listnámsbrautinni. Og nú styttist í það. Núna á lokaönninni er Aðalheiður m.a. að vinna að lokaverkefni sínu í myndlistinni sem hún segir að séu sjö 30x30 cm myndverk unnin með akríl í grunninn. Ofan í myndflöt hverrar myndir ætlar Aðalheiður að setja hina ýmsu hluti. Hver mynd verður með einn lit enda segir hún að litirnir séu þemað í verkinu. Hugmyndin að verkinu segir hún að hafi þróast smám saman í byrjun annarinnar út frá því áhugasviði hennar að vinna eitthvað formkennt, þrívíddarleg og litríkt.
Stundatafla Aðalheiðar er oft þéttskipuð enda er hún í tvöföldu námi og í raun ríflega það því auk VMA er hún á fullu í tónlistarnámi í Tónlistarskólanum á Akureyri og lærir þar á bæði fiðlu og básúnu. Óvenjulegur dúett í tónlistarnámi, er óhætt að segja, en Aðalheiður segist njóta þess að æfa og spila á bæði hljóðfæri og vill hvorugu sleppa. Frá átta ára aldri hefur hún lært á fiðluna og er núna á framhaldsstigi í henni og síðar bættist básúnan við og í vor er stefnan tekin á miðstigspróf í henni. Áherslan næstu vikur og mánuði verður því að klára námið í VMA og æfa stíft á básúnuna fyrir miðstigsprófið.
En hvað tekur svo við eftir VMA? Tónlistin fær aukinn tíma, segir Aðalheiður. Hún stefnir á að ljúka framhaldsstiginu í fiðluleik við Tónlistarskólann á Akureyri og sér því fyrir sér að næstu tvö árin eða svo verði hún í tónlistarnámi til hliðar við einhverja daglega vinnu. Að því loknu er svo spurningin hvað tekur við en Listaháskólinn heillar – annað hvort í tónlistar- eða myndlistarnám. Í það minnsta er Aðalheiður nokkuð viss um að í framtíðinni vilji hún feta listabrautina á einn eða annan hátt.