Hugsanlegt verkfall áhyggjuefni
Á morgun, föstudag, er væntanleg niðurstaða úr atkvæðagreiðslu framhaldsskólakennara um verkfallsboðun. Komi til verkfalls gæti það skollið á um miðjan mars. Á sama tíma eiga samninganefndir kennara í viðræðum við fulltrúa ríkisins um lausn deilunnar, en óvíst er hvenær botn fæst í þær. Af eftirfarandi frétt að dæma, sem Berglind Ottesen og Halldór Arnarsson, nemendur í FJÖ173, hafa unnið, eru bæði kennarar og nemendur í VMA áhyggjufullir yfir stöðu mála.
"Í lok síðustu viku lauk kosningu framhaldskólakennara um hvort ætti að boða til verkfalls. Við tókum nokkra kennara og nemendur í VMA
á tal og spurðum þá spjörunum úr um mögulegt verkfall. Kennarar vonuðu það besta en voru samt sem áður undirbúnir fyrir
það versta. Nemendur höfðu miklar áhyggjur af áhrifum verkfalls á nám þeirra en studdu þó kennara í baráttu
sinni.
Jónas Jónsson kennslustjóri sagði meðal annars að þetta væri erfið tilhugsun, miklu erfiðari en nokkurn tíma áður, þetta
verður fjórða verkfallið sem hann tekur þátt í ef af verður og honum finnst þetta afskaplega erfitt núna. Honum fannst ekki vera mikil
stemmning fyrir verkfallinu, hvorki af hálfu kennara né viðsemjenda.
Hermann Tómasson bætti við: ,,Mér líst ekkert sérstaklega vel á yfirvofandi verkfall, verkfall er alltaf vont neyðarúrræði. Ég
hef tekið þátt í tveimur eða þremur verkföllum og þetta er alltaf hundleiðinlegur tími, ég kvíði fyrir
því.”
Margir velta því fyrir sér hversu langt verkfallið muni verða ef til þess kemur. Aðspurð sagði Annette de Vink: ,,Líklegast ekki langt,
vonandi, það verður mjög erfitt að leysa málið ef það verður langt. “ Jónas hafði einnig þetta um málið að segja:
,,Það er ekki gott að segja. Það verður annaðhvort mjög stutt en ef það fer yfir vikuna held ég að það verði 4-8 vikur.
Það er svona hefðin í þessu, því miður.”
Aðspurðir sögðu allir kennararnir að þeim finnist þeir hafa tekið mikinn þátt í kjarabaráttu kennara vegna allra þeirra verkfalla
sem þeir hafa tekið þátt í. Hermann sat einnig í samningarnefnd fyrir félag stjórnenda í framhaldsskólum í verkfallinu
skólaárið 1999-2000.
Við spurðum kennara hvort þeir væru búnir að ákveða hvernig þeir myndu eyða tíma sínum ef það kæmi til verkfalls.
Annette hafði ekki miklar áhyggjur af því, hún myndi fara á ýmis námskeið og ekki láta sér leiðast. Jónas var hins
vegar á öðru máli. Hann segir: ,,Jafnvel þótt þú hafir allan tíma í veröldinni í verkfalli kemurðu aldrei neinu í
verk. Síðast var ég í verkfalli rétt fyrir jól og fór í það að baka allar smákökusortir á heimilinu, kannski
ég fari bara í það að baka núna.”
,,Ég held að maður verði að hugsa þetta þannig að ekki eigi að reikna með verkfalli fyrr en það skellur á,” segir Hermann.
Áhyggjufullir nemendur
Þeir nemendur sem rætt var við höfðu miklar áhyggjur af námi sínu. ,,Mig langar ekki að verkfallið verði,” sagði Sólveig
Dalrós Þórólfsdóttir, ,,og mér finnst hræðilegt ef að það verður.” Af viðtölum við nemendur má greina
að flestir þeirra styðja kennara í baráttu þeirra fyrir launaleiðréttingu og finnast kröfur þeirra vera mjög sanngjarnar. Við
spurðum nemendur hvað þeim finndist um að verkfallið myndi bitna á námi þeirra. Þorvaldur Már Sigursteinsson sagði: ,,Það
mun bitna á þann hátt á mér að ég mun ekki útskrifast á réttan hátt.” ,, Ég myndi þurfa að taka
alla önnina aftur vegna þess að ég er í verknámi,” segir Stefanía Tara Þrastardóttir.
Að lokum voru nemendur spurðir hvort þeir væru búnir að gera einhverjar ráðstafanir ef til verkfalls myndi koma. Stefanía hyggst fara að vinna og
sumir nemendur munu líklegast leggjast í dvala en Sólveig Dalrós segir að hún muni að öllum líkindum sofa mest allan tímann í
verkfallinu."
Berglind Ottesen og Halldór Arnarsson