Hundalógík Hunds í óskilum
Þeir félagar Hjörleifur Hjartarson og Eiríkur Stephensen, sem saman mynda hljómsveitina Hund í óskilum, halda fyrirlestur í dag, þriðjudaginn 27. janúar, kl. 17 í Ketilhúsinu sem þeir nefna Hundalógík. Í fyrirlestrinum munu þeir félagar velta fyrir sér Hundi í óskilum og hvort eitthvað sé á bak við hann.
Fyrirlesturinn er í röð svokallaðra þriðjudagsfyrirlestra sem efnt er til á þriðjudagseftirmiðdögum í Ketilhúsinu á vegum listnámsbrautar VMA, Listasafnsins á Akureyri, Háskólans á Akureyri og Myndlistaskólans á Akureyri.
Hundur í óskilum varð til í leikfélagspartíi á Dalvík fyrir 20 árum og ætlaði sér aldrei stóra hluti. En í tímans rás hafa þeir félagar sótt í sig veðrið, ekki síst á fjölum leikhúsa, bæði hér norðan heiða og sunnan. Þeir sýndu leikritið Sögu þjóðar við miklar og góðar undirtektir og það var síðan sýnt í sjónvarpi allra landsmanna á nýársdag í ár. Og þeir félagar halda áfram að segja sögu þjóðarinnar í spéspegli í leikritinu Öldin okkar, sem var ítrekað sýnt fyrir fullu húsi í Samkomuhúsinu á Akureyri undir lok síðasta árs og er nú að gera það gott í Borgarleikhúsinu.
Enginn aðgangseyrir er á fyrirlesturinn og eru allir velkomnir.