Fara í efni

Húsasmíðanemi og gítarleikari ársins á Músíktilraunum 2025

Ísleifur Jónsson, gítarleikari ársins á Músíktilraunum 2025.
Ísleifur Jónsson, gítarleikari ársins á Músíktilraunum 2025.

Hann kom, sá og sigraði í Músíktilraunum um síðustu helgi og var útnefndur besti gítarleikari Músíktilrauna 2025. Ísleifur Jónsson er nemandi á öðru ári í húsasmíði í VMA og gítarleikari í hljómsveitinni Sót. Hann segir mikinn heiður að fá þessa útnefningu og vonandi styrki hún hann í músíkheiminum á Íslandi.

Ísleifur er úr Hólminum – Stykkishólmi – en býr á Heimavist MA og VMA meðan á námi hans í húsasmíðinni í VMA stendur. Faðir hans er smiður og því segist Ísleifur hafa þetta í blóðinu og hafi raunar verið að smíða frá því að hann var lítill polli. Það hafi því legið beinast við að fara í nám í húsasmíði og hann segist ekki sjá eftir því, námið hafi verið mjög skemmtilegt. Ekki síst sé afar lærdómsríkt að byggja frístundahús frá grunni eins og nemendur á öðru ári gera. Á haustönn tekur við starfsnám sem Ísleifur gerir ráð fyrir að taka í heimabænum Stykkishólmi og einnig komi til greina að taka mánuð í smíðunum í skiptinámi á Spáni. Sjöttu og síðustu önn námsins tekur Ísleifur síðan á vorönn 2026 og stefnan er á brautskráningu í maí 2026. Síðustu sumur hefur Ísleifur verið í smíðunum í Hólminum og með náminu í VMA vinnur hann hjá byggingarverktakanum ÁK smíði á Akureyri.

Ísleifur þekkti aðeins til Akureyrar enda bjó hann í uppvextinum með fjölskyldu sinni á Siglufirði. Því var hann spenntur fyrir því að koma til Akureyrar í skóla og einnig hafði það sitt að segja að hann taldi góðar líkur á að hann og félagi hans í Sót, bassaleikarinn Ívar Leó Hauksson, sem einnig er úr Hólminum og einnig nemandi í VMA, gætu fengið fleiri unga tónlistarmenn til liðs við sig og stofnað hljómsveit. Það gekk eftir og til varð hljómsveitin Sót, sem nú hefur starfað á annað ár og er einmitt þessa dagana að ljúka við upptökur á fyrstu plötu sveitarinnar. Hún var tekin upp á Akureyri og var upptökustjórn í höndum Egils Jónassonar – Drengurinn fengurinn. Unnið er að því að fínpússa plötuna og mun hún að óbreyttu heyrast fyrr en síðar á streymisveitum. Nú þegar eru tvö lög sveitarinnar aðgengileg á streymisveitum, Killer Shit og Allt lyktar illa, bæði lögin eru eftir Ísleif.

Auk Ísleifs og Ívars Leós eru í Sót söngvarinn Aron Freyr Ívarsson (einnig nemandi í VMA), Daníel Hrafn Ingvarsson gítarleikari (nemandi í MA) og trommuleikarinn Bjarmi Friðgeirsson (fyrrum nemandi í VMA).

„Ég byrjaði fimm ára gamall að æfa mig á gítar. Ástæðan fyrir því að gítarinn varð fyrir valinu var sú að afi minn, Guðlaugur Kristinn Óttarsson, gítarleikari í Þey og Kuklinu í gamla daga, keypti fyrsta gítarinn minn og þar með var ekki aftur snúið. Það má segja að ég hafi smitast dálítið af tónlistinni sem afi spilaði á þessum árum og einnig er pabbi, sem spilar á trommur, algjör þungarokkari og hefur kynnt mér þá músík. Hljómsveitarferillinn minn hófst á því að spila með pabba í bílskúrnum!
Ég er að mestu sjálfmenntaður gítarleikari. Mér leiddist gítarnámið á mínum fyrstu árum í þessu og fór bara að læra þetta sjálfur. Maður lærir þetta með því að spila endalaust og ég stúdera ákveðna gítarleikara og velti fyrir mér hvaðan þeir sækja sinn innblástur. Smám saman safnast þannig reynsla og kunnátta í sarpinn. Internetið er líka ómetanlegt í að læra svona, þar finnur maður allt sem á þarf að halda til þess að læra þetta.
Tónlistina okkar í Sót myndi ég skilgreina í stórum dráttum sem á ensku kallast Psychedelic Stoner Rock og af íslenskum hljómsveitum sem hafa haft áhrif á okkur má nefna Brain Police og Vintage Caravan. Við tókum þátt í Músíktilraunum í ár en komust ekki áfram, sem var ákveðinn skellur en samt allt í góðu. En ég fékk þessa viðurkenningu sem gítarleikari Músíktilrauna 2025 og því get ég ekki annað en gengið mjög sáttur frá borði.
Ég hef ekki lært nótur og spila því ekki eftir nótum en núna er ég sjálfur að læra tónfræði, eins og tveir félagar mínir í hljómsveitinni.
Einn af þeim gítarleikurum sem ég fylgist mikið með er Óskar Logi Ágústsson í Vintage Caravan og ekki má gleyma Guðlaugi afa mínum. Ég hlusta líklega mest á bandarísku þungarokksveitina Pantera, í þeirri sveit er að mínu mati mjög flottur gítarleikari. Einnig hlusta ég töluvert á Jimi Hendrix og Led Zeppelin – og Eric Clapton er líka mjög flottur.
Ég og Davíð Hrafn, gítarleikararnir í Sót, semjum mest af lögum sveitarinnar en Aron söngvari semur textana. Það hefur verið töluvert að gera að undanförnu, líklega höfum við komið fram og spilað síðustu fimm helgar,“ segir húsasmíðaneminn og gítaristinn Ísleifur Jónsson.