Margar hliðar á geðheilsu
Jóhanna Bergsdóttir, skólasálfræðingur VMA, fjallaði í fyrirlestri sl. þriðjudag um geðheilbrigðismál í þemaviku VMA um heimsmarkmið SÞ þar sem hún dró saman nokkur lykilatriði varðandi þennan málaflokk.
Jóhanna sagði að hugtakið geðheilsa hefði víða skírskotun en í sem stystu máli tæki það til þess hvernig við metum okkur sjálf, hvaða viðhorf við höfum til lífsins, í hvernig samskiptum og tengslum við séum við annað fólk og hvernig við bregðumst við álagi. Hún nefndi að varðandi geðheilsu þyrfti að hafa í huga líffræðilega þætti og umhverfisþætti – t.d. missi, ofbeldi, vanrækslu, höfnun og félagslega einangrun.
Jóhanna orðaði það svo að góð geðheilsa fólks endurspeglist í því að það sé sátt við sig sjálft, sé sátt við eigin skoðanir og beri virðingu fyrir skoðunum annarra, finni til öryggis og ánægju, geti aðlagast breyttum aðstæðum og kunni að setja sér mörk og markmið.
Hún sagði að allir glímdu einhvern tímann við vanlíðan og dagarnir væru ólíkir vegna ófyrirsjáanlegra atvika. Einnig væri ekki óeðlilegt þótt upp byggðist streita í hinu daglega lífi. Hjá nemendum gerði kvíðinn til dæmis vart við sig í aðdraganda prófa. Slíkt væri fullkomlega eðlilegt. Fyrir alla væri lífið allskonar og það tæki breytingum.
En hvernig á þá að móta góða geðheilsu? Jóhanna sagði mikilvægt að horfa til félagslegrar þátttöku og reglulegrar hreyfingar, borða hollan mat og reglulega, sofa nóg og hvílast vel, gefa sér tíma til að prófa nýja hluti og leita eftir stuðningi og hvatningu.
Jóhanna nefndi að fyrir nemendur í VMA væru ýmis úrræði ef þeir þyrftu á aðstoð að halda. Hún væri með starfsaðstöðu í skólanum og til sín gætu allir leitað, einnig gætu nemendur leitað til hjúkrunarfræðings, námsráðgjafa, kennara og annars starfsfólks. Þá væri rétt að vekja athygli á Hjálparsíma Rauða krossins 1717, Bráðamóttöku Sjúkrahússins á Akureyri og Heilsugæslustöðinni á Akureyri og einnig væri hægt að leita til sálfræðinga á stofum á Akureyri. Úrræðin væru því mörg, ef nemendur þyrftu á að halda.