Hvað er kynvera? Fyrirlestur Siggu Daggar í VMA nk. miðvikudagskvöld
Næstkomandi miðvikudagskvöld, 29. janúar, kl 20, verður Sigríður Dögg Arnardóttir – Sigga Dögg – kynfræðingur með fyrirlestur í VMA sem hún kallar Ertu kynvera? Allt sem þú þarft að vita um kynfæri og kynlíf. Fyrirlesturinn er ætlaður framhaldsskólanemum og að honum standa forvarna- og félagsmálaráðgjafar Akureyrarbæjar.
Sigga Dögg er með BA próf í sálfræði frá Háskóla Íslands og MA gráðu í kynfræði (sexology) frá Curtin háskólanum í Ástralíu. Hún hefur undanfarinn áratug verið ötul við að halda fyrirlestra um kynfræði og kynlíf í m.a. grunn- og framhaldsskólum landsins.
Á heimasíðu sinni nefnir Sigga Dögg nokkur atriði sem kynfræðsla geti haft áhrif á:
- Seinkað fyrstu samförum.
- Aukið líkur á notkun smokksins og annarra getnaðarvarna.
- Fækkað bólfélögum.
- Dregið úr áhættumeiri kynhegðun.
- Aukið samræður milli foreldra og unglinga um kynferðisleg málefn.i
- Aukið sjálfsöryggi og sjálfsábyrgð til að stunda ekki kynlíf og gera kröfu um notkun smokks.
Í fyrirlestrinum í VMA segist Sigga Dögg fjalla um hvað sé að vera kynvera, ólíkar hliðar kynlífs, útfærslur og tjáningarmáta, sambandsform og fjölbreytileika.