Hvað er núvitund?
Liður í heilsueflandi viku í VMA er kynning á núvitund. Kristjana Pálsdóttir sálfræðikennari sagði stuttlega frá núvitund í löngu frímínútunum í gær og fékk viðstadda til þess að taka þátt í núvitundaræfingu. Hún verður aftur á sviðinu í Gryfjunni í löngu frímínútunum í dag og á morgun verður þar Valgerður Dögg Jónsdóttir kennari með nokkur orð um núvitund.
Sem inngang að núvitundaræfingunni í Gryfjunni í gær sagði Kristjana: „Eitt af því sem við þurfum að huga að varðandi heilsu okkar er andleg líðan. Núvitund er gott tæki til þess að þjálfa einbeitinguna og hjálpar okkur að beina athyglinni að ákveðnum hlutum. Reynslan hefur sýnt að núvitund er gott tæki til þess að vinna gegn kvíða og þjálfa einbeitinguna.“
Á ensku er núvitund Mindfulness. Á vefnum doktor.is ritar Stefanía Ösp Guðmundsdóttir hjúkrunarfræðingur áhugaverða grein um núvitund. Þar segir hún m.a. að markmiðið með að notast við núvitund sé að bæta lífsgæði.
Kostir þess að iðka núvitund segir Stefanía Ösp ótal marga. Hún sé talin geta minnkað streitu, dregið úr einkennum kvíða og þunglyndis, bætt minni, haft gagnleg áhrif á athyglisbrest, dregið úr verkjum, stuðlað að betri lærdómsgetu, dregið úr hættu á hjarta- og æðasjúkdómum, styrkt ónæmiskerfið, haft gagnleg áhrif sem viðbót við fíknimeðferð, aukið leiðtogafærni, aukið sjálfsálit og bætt samskipti við annað fólk.
Hreyfing í heilsueflandi viku
Hreyfing er allra meina bót, um það er ekki deilt. Hvort sem fólk skokkar, fer í göngutúra, hjólar eða fer í ræktina og lyftir lóðum. Í heilsueflandi viku í VMA eru nemendur og starfsmenn skólans hvattir til þess að hjóla í skólann. Fimm kennarar í VMA hjóluðu Eyjafjarðarhringinn í gær. Nú er unnið að því að malbika stíginn vestan Eyjafjarðarbrautar vestari og brátt verður kominn malbikaður stígur fram á Hrafnagil. Hann verður sannarlega kærkominn fyrir alla unnendur útivistar. Þessar myndir tók Svanlaugur Jónsson kennari af kollegum sínum á Eyjafjarðarhringnum í gær.