Hvað er talnablinda (discalculia)?
Fjöldi nemenda á öllum skólastigum glímir við lesblindu af ýmsum toga. Síðustu ár hefur athygli manna einnig beinst að því að einstaklingar eiga ekki bara í erfiðleikum með að lesa texta, blindan er ekki síður á tölur en bókstafi. Í VMA er fagfólk sem annast bæði lesblindu- og talnablindupróf.
Lesblinda fólks birtist í óteljandi myndum, hún torveldar nemendum nám sitt á einn eða annan hátt og þeir þurfa að hafa meira fyrir því en aðrir. Fyrir mörgum árum var lítil sem engin umræða um lesblindu, enda þekking á henni af skornum skammti. En með tíð og tíma varð umræðan opnari og um leið þekkingin meiri og betri og skólakerfið fór að bregðast meira við. Í VMA geta nemendur með lesblindu leitað úrræða hjá fagfólki – námsráðgjöfum og kennurum.
Hér skal hins vegar sjónum beint að talnablindu, sem í mörgum tilfellum er ein af ástæðum þess að viðkomandi nemendur eiga alla tíð í miklum erfiðleikum með að læra stærðfræði. Ragnheiður Gunnbjörnsdóttir, kennari og kennslustjóri starfsbrautar VMA, hefur aflað sér sérþekkingar á þessu sviði.
„Það er til staðlað próf, „Talnalykill“, sem er notað til þess að sjá út sértæka stærðfræðierfiðleika, sem kallast „discalculia“ – segja má samsvarandi við „dyslexiu“ eða lesblindu. Til þess að mega nota Talnalykil þarf að læra notkun hans og ég gerði það. Talnalykill inniheldur verkefni fyrir nemendur upp í 7. bekk grunnskóla. Til þess að unnt sé að nota þetta próf hér í VMA bætti ég við þyngra námsefni. Þegar ég fæ nemendur til mín í þetta próf byrja ég á því að taka ítarlegt viðtal við þá og þá fæ ég sögu þeirra í sambandi við stærðfræðina, sem oftar en ekki reynist hafa verið mikil þrautaganga. Þeir sem koma til mín hafa margir verið í miklum erfiðleikum með stærðfræðina alveg frá því í fyrstu bekkjum grunnskóla, en einnig eru dæmi þess að þessir erfiðleikar hafi hafist fyrir alvöru á unglingastigi. Saga þessara nemenda er auðvitað mismunandi en sumir segja að þeir hafi fengið að heyra að þeir væru latir og legðu sig ekki nóg fram. Þessir nemendur eru oft með brotna sjálfsmynd, því þeir hafa undantekningalítið fengið afar lágar einkunnir í stærðfræði eða fallið. Þetta heldur áfram upp í framhaldsskóla. Þar taka þeir sama stærðfræðiáfangann aftur og aftur, fá mjög oft utanaðkomandi hjálp og finnast þeir vera búnir að ná efninu en það dugar ekki til, þeir falla. Þá leita þeir aðstoðar námsráðgjafa og/eða kennslustjóra sem vísar þeir áfram til mín. Ég hef fengið til mín nemendur sem eru við það að hætta í skólanum vegna stærðfræðinnar og líklegt er að einhverjir hafi hreinlega gefist upp vegna þessara erfiðleika með stærðfræðina og hætt námi.
Talnablinda, eins og lesblinda, birtist í ótal myndum, til dæmis ruglast nemendur á tölum, þeir ruglast á merkjum, þeir sleppa tölum, snúa þeim við og kunna ekki að nýta sér þær aðgerðir í stærðfræði sem þeim hafa verið kenndar alla sína skólagöngu. Þeir hafa sumir slakt langtímaminni og eiga til dæmis erfitt með að muna margföldunartöfluna. Þeir geta oft reiknað erfið dæmi einn daginn en hafa svo ekki skilning á þeim þann næsta. Stundum finnst þeim þeir vera búnir að ná einhverju í skólanum og ætla svo að halda áfram heima en muna þá ekki neitt. Sömuleiðis læra þeir vel fyrir próf og kunna efnið en muna svo ekki hvernig á að leysa dæmin í könnunum og prófum. Sumir nemendur sem eiga við þetta að stríða eiga einungis í erfiðleikum með stærðfræðinám, en eru sterkir námslega í öðrum greinum, sumir eiga í erfiðleikum með stærðfræði og eitt tungumál – t.d. dönsku eða þýsku – en í mörgum tilfellum gengur nemendum vel í ensku. Það fer oft saman að nemendur sem eiga í erfiðleikum með að vinna með tölur lenda í erfiðleikum með aðrar raunvísindagreinar eins og t.d. eðlisfræði, náttúrufræði og efnafræði.
Eftir að hafa farið í gegnum Talnalykilinn og hann sýnir fram á að ekki sé allt með felldu, léttir mörgum nemendum. Þeir sjá að þeir hafi eftir allt saman ekki verið eins „heimskir” og þeir hafi sjálfir talið sér trú um og/eða fengið ítrekað að heyra frá öðrum. Erfiðleikana með stærðfræðinámið mætti rekja til þessarar svokölluðu talnablindu, en ekki það að þeir vildu ekki læra stærðfræðina. Mögulegt er innan skólans að hjálpa nemendum t.d. með færri dæmum á blaði, lengri prófatíma, öðrum lit á blöðum o.s.frv., svipað og nemendur fá sem eiga við lesblindu að stríða. Kennarar leggja sig oft einnig fram um að útskýra fyrir nemendum á annan hátt en vanalegt er og stundum hjálpar það. En það eru engir tveir eins og engin ákveðin töfralausn til í þessum efnum, frekar en með lesblinduna.“
Ragnheiður segir að lengi hafi verið viðurkennt að margir ættu við sértæka erfiðleika að etja í lestri, en erfiðleikar nemenda með að vinna með tölur hafi ekki verið eins í umræðunni. Raunar séu alls ekki allir í fræðasamfélaginu sammála um að þetta efni. „En í mínum huga fer þetta alls ekki á milli mála. Nemendur koma til mín og vilja fá að vita um stöðu sína og fá útskýringar. Þeir vilja að sjálfsögðu útskrifast með allar sínar einingar, í stærðfræði eins og öðrum greinum, en vinnan með tölur er þeim mikill þröskuldur. Þegar svo er komið reynir Verkmenntaskólinn að finna leiðir fyrir hvern og einn til að nemendur geti lokið námi sínu.“
Ragnheiður segir að til sín leiti að meðaltali á önn um fimmtán nemendur með sögu um námserfiðleika í stærðfræði. „Flestir þessara nemenda eru komnir langt í sínu námi og eru farnir að nálgast útskrift. Þeir vilja komast til botns í því af hverju þeim hafi alla tíð gengið mjög illa í stærðfræði og fallið í þeim áföngum aftur og aftur. En þess eru einnig dæmi að til mín leiti nýnemar sem eru búnir með nokkra mánuði í skólanum,“ segir Ragnheiður Gunnbjörnsdóttir.