Hvað er „víðhygli“?
Fyrir um áratug setti Arna Valsdóttir, kennari og brautarstjóri listnámsbrautar VMA, fram hugtakið „víðhygli“ sem hún taldi og telur enn að eigi mun betur við um fjölmarga þá einstaklinga sem hafi verið greindir með „athyglisbrest“.
Arna hefur starfað við kennslu á þriðja áratug á öllum skólastigum og hefur því kynnst fjölbreyttu litrófi mannlífsins frá ýmsum hliðum. Meðal annars segist hún hafa margoft komist að raun um að nemendur sem hafi fengið þá greiningu að vera með athyglisbrest hafi reynst vera rólegir og yfirvegaðir í áföngum í listnámi þar sem fengist er við sköpun eða skapandi aðferðir af ýmsu tagi. Og margir af þessum einstaklingum segir Arna að hafi fundið sína fjöl í listnámi og búi yfir hæfileikum sem öðrum séu ekki gefnir. Arna segist þekkja fjölmörg dæmi um þetta og það hafi styrkt sig í því að hugtakið „athyglisbrestur“ gefi alranga mynd af viðkomandi einstaklingum og sé um leið neikvætt. Út frá þessu varð nýyrðið„víðhygli“ til, sem að mati Örnu segir til um hæfni þessara einstaklinga til þess að tengja saman ólíka hluti og um leið sé hugtakið jákvætt.
„Það er mín reynsla að þessir krakkar hafa ákveðna hæfileika til þess að hugsa abstrakt til þess að ná ákveðnu mynstri og þeir hafa oft mjög mikla athygli í sinni sköpun. Þeir vita nákvæmlega hvað þeim þykir athyglisvert og því er mörgum þeirra erfitt þegar einhverjir aðrir segja hvað þeim eigi að finnast athyglisvert. Það getur orðið til þess að loka á það sem þessir nemendur eru að hugsa um og þar með missa þeir þráðinn. Þessi ungmenni eru víðhugul en eru ekki með athyglisbrest. Þetta vil ég leyfa mér að segja vegna þess að ég hef í gegnum tíðina margoft orðið vitni að þessu í minni kennslu í listnámi og sköpun af ýmsum toga,“ segir Arna Valsdóttir.
oskarthor@vma.is