Hvaðan koma nemendur VMA?
Um 57% nemenda VMA eru karlar og 43% konur. Tæplega sex af hverjum tíu nemendum skólans koma frá Akureyri. Þetta er meðal þess sem lesa má út úr tölulegum upplýsingum um nemendur skólans.
Eins og vænta má er aldursbreidd nemenda VMA meiri en gengur og gerist í hefðbundnum framhaldsskólum þar sem áherslan er fyrst og fremst á bóknámið. Eins og við höfum greint frá hér á heimasíðunni lætur nærri að um helmingur nemenda VMA stundi bóknám og um helmingur verk- og tækninám. Áfangakerfið í bóknámi gerir það að verkum að margir eldri en tvítugt stunda þar nám af einum eða öðrum toga og síðan er töluvert um að nemendur eldri en 20 ára stundi nám á verknámsbrautum skólans.
Í tölulegum upplýsingum sem finna má á heimasíðu VMA, sem Jóhannes Árnason, kennari við skólann, hefur tekið saman, kemur margt athyglisvert fram. Nýjustu tölurnar eru fyrir haustönn 2012 og segir Jóhannes að þær megi í stórum dráttum heimfæra upp á vorönn. Samkvæmt þessum tölulegu upplýsingum eru um 27% nemenda skólans yfir tvítugt, 11% eru yfir 25% ára aldri, 6% yfir þrítugt og 4% yfir 35 ára aldri.
Ef horft er til einstakra námsbrauta er kynjahlutfallið nokkuð jafnt á nokkrum þeirra, t.d. á náttúrufræða- og félagsfræðibraut. Áberandi kvennagreinar eru sjúkraliðabraut og hársnyrtiiðn og konurnar eru mun fleiri í listnámi en karlar. Hins vegar eru töluvert fleiri karlar en konur á íþróttabraut, í viðskipta- og matvælanámi. En kynjamunurinn er mest sláandi á tæknisviði skólans, þar eru 82% karlar og 18% konur. Innan þess sviðs eru m.a. vélstjórn, rafiðngreinar, bygginga- og málmtæknigreinar.
En hvaðan koma svo nemendur Verkmenntaskólans á Akureyri? Það kemur ekki á óvart að nemendur frá Akureyri eru þar í meirihluta eða um 58% nemenda skólans. Skiptingin milli bæjarhluta er nokkuð jöfn, úr póstnúmerinu 603 (norðan Glerár) eru um 27% nemenda VMA en úr póstnúmerinu 600 (sunnan Glerár) eru um 31% nemenda skólans. Um 16% nemenda koma úr sveitarfélögum í Eyjafirði utan Akureyrar og um 26% úr öðrum landshlutum. Af þessum 26% koma 7% af Norðvesturlandi, 2% af höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesi, 1% af Vesturlandi, 1% frá Vestfjörðum, 8% úr Þingeyjarsýslum, 6% af Austurlandi og um 1% af Suðurlandi og frá útlöndum.