Hvatningin drífur mig áfram
Akureyringurinn Auður Lea Svansdóttir tekst af krafti, bjartsýni og æðruleysi á við daglegt líf og lætur töluverða sjónskerðingu ekki hindra sig í að takast á við það sem henni finnst skemmtilegt að gera. Hún er í fótbolta í öðrum flokki Þórs/KA og spilar stöðu markmanns.
Auður Lea er sextán ára gömul. Hún lauk Giljaskóla sl. vor og innritaðist á brautabrú VMA sl. haust. Nú hefur hún ákveðið að fara á viðskipta- og hagfræðibraut skólans. Hún segist hafa ánægju af viðskiptum og því hafi kannski legið nokkuð beint við að fara á þessa námsbraut. Undanfarin tvö sumur hefur hún starfað í Nettó á Akureyri og vinnur þar svolítið um helgar með skólanum.
Sjónskerðingin segir Auður Lea að sé töluverð. Sjónin á hægra auganu sé -9 og ríflega -7 á vinstra auga. Hún rifjar upp að skert sjón hennar hafi uppgötvast þegar hún var á leikskóla. Þá hafi hún fengið gleraugu en núna sé hún með linsur.
Auður Lea hefur verið í fótbolta, bæði í Þór og KA, bæði sem útileikmaður og markmaður. „Staurblind í marki,“ segir hún og hlær. Hún dregur ekki dul á að stundum hafi verið erfitt að vera markmaður með þessa sjónskerðingu og það hafi sært sig þegar hún hafi heyrt þær raddir að sjónskert ætti hún ekki að vera í marki. „En mér hefur lærst að taka slíkar raddir ekki inn á mig, miklu frekar hafa þær styrkt mig í því að halda áfram. Auðvitað hefur þetta gengið upp og niður og þeir dagar hafa komið að ég hef spurt sjálfa mig að því af hverju sé ég að brasa í þessu. En hvatningin til þess að halda áfram, bæði frá foreldrum mínum og systkinum og samherjum í fótboltanum hefur hjálpað mér til þess að halda mínu striki. Ég gekk upp í annan flokk núna í haust og ég er mjög ánægð með hópinn og Donni þjálfari hefur stutt mig áfram. Fyrir það er ég þakklát. Ég er á markmannsæfingum hjá Sandor Matus og hann hefur hjálpað mér mikið og síðan fer ég á annars flokks æfingar. Yfirleitt gengur þetta vel en ég finn að ég sé ekki eins vel þegar ég er þreytt á æfingum. Eðlilega reynir oft á mig í markinu og ég finn auðvitað fyrir mikilli ábyrgð að vera í marki. En aðal málið er halda áfram og missa ekki trúna,“ segir Auður Lea.
Hún segir að sjónskerðingin geri það að verkum að hún fari í það minnsta á hálfs árs fresti til eftirlits í höfuðborginni og því sé fylgst vel með öllum breytingum á sjóninni. Auk sjónskerðingarinnar segist hún glíma við lesblindu og því noti hún eins mikið hljóðbækur og kostur sé og njóti annarrar aðstoðar í náminu. „Þrátt fyrir lesblinduna og sjónskerðinguna hefur námið gengið ágætlega. Hér í VMA hef ég fengið góðan stuðning og fyrir það er ég þakklát,“ segir Auður Lea Svansdóttir.