Hvar er draumurinn?
Pétur Guðjónsson, viðburðastjóri í VMA, hefur jafnan mörg járn í eldinum og flest miða þau að listsköpun á einn eða annan hátt. Að vonum er í mörg horn að líta í félagsmálunum í skólanum, eins og t.d. leiklistinni, svo sem greint var frá hér á heimasíðunni í gær. En þar fyrir utan hefur Pétur eitt og annað á prjónunum. Eitt af þessum verkefnum er stuttmynd sem hann er með í smíðum. Upptökum lauk á dögunum og framundan er eftirvinnsla myndarinnar.
Í gegnum tíðina segist Pétur hafa gert sex stuttmyndir. Eina af þessum myndum vann Pétur með stúlkum á meðferðarheimilinu á Laugalandi í Eyjafirði. Sú mynd var og verður ekki sýnd opinberlega en þar er í stórum dráttum skyggnst inn í heim vímuefna og skoðaðar ýmsar hliðar á honum. Pétur segir að hann hafi fengið hvatningu til þess að vinna áfram með þessa hugmynd og úr hafi orðið að hann hafi endurskrifað handrit myndarinnar og fengið við það ýmsar góðar ráðleggingar, m.a. frá leikstjóranum Baldvini Z, sem Pétur segist alltaf hafa litið á sem sinn „mentor“ í kvikmyndagerðinni. Og nú er tökum sem sagt lokið á þessari nýju stuttmynd sem heitir „Hvar er draumurinn?“ Upptökur fóru fram að stærstum hluta á Akureyri – m.a. á Sjúkrahúsinu á Akureyri - en einnig var eitt atriðið tekið upp við Hólavatn í Eyjafjarðarsveit.
„Nú er eftirvinnslan framundan og ég stefni að því að myndin, sem verður tuttugu til þrjátíu mínútna löng, verði tilbúin til sýninga í mars á næsta ári. Ég held að það væri t.d. full ástæða til þess að sýna myndina fyrir nemendur í 10. bekk um allt land og ég myndi vilja sjá hana sýnda sem víðast. Ég vil ekki segja að þetta sé forvarnamynd, frekar mætti orða það svo að myndin verði sýnd í forvarnaskyni. Það voru allir boðnir og búnir að taka þátt í þessu með okkur og ég hygg að á bilinu 30-40 manns hafi komið að gerð myndarinnar,“ segir Pétur. Þar á meðal eru nokkrir nemendur og kennarar í VMA og leikarar úr bæði Leikfélagi Hörgdæla og Freyvangsleikhúsinu. Margir koma við sögu við myndvinnsluna – t.d. Helgi Steinar Halldórsson, Þórhallur Jónsson, Axel Þórhallsson og Hilmar Friðjónsson.
Pétur segir að vissulega kosti gerð slíkrar myndar umtalsverða fjármuni en enn sem komið er geri hann myndina á eigin reikning. Hins vegar sé hann að vinna að því ásamt konu sinni að sækja víða um styrki til þess að standa undir kostnaðinum. Vonandi takist að ná endum saman.