Hver vegur að heiman er vegurinn heim!
Fyrir nákvæmlega þrjátíu árum var Akureyringurinn Sverrir Ragnarsson í hópi nýstúdenta VMA – af viðskipta- og hagfræðibraut. Eins og grunnurinn í náminu hans forðum daga sagði til um fetaði hann braut viðskiptanna og síðustu árin hefur hann búið í Bandaríkjunum og einbeitt sér að fyrirlestrahaldi og ráðgjöf til stjórnenda og starfsmanna fyrirtækja út um allan heim. Og nú er Sverrir kominn á heimaslóðir og heldur fyrirlestra í Hofi laugardaginn 7. janúar nk. – annars vegar fyrir yngra fólk á aldrinum 10-16 ára og hins vegar fullorðna.
„Þegar ég horfi til baka til skólaáranna í VMA minnist ég þess að þetta var skemmtilegur tími og ég tel að við höfum fengið fína menntun og góðan grunn fyrir lífið. Á þessum tíma var ég til hliðar við námið í VMA í íþróttum, bæði í fótbolta og handbolta. Þó langt sé um liðið eru enn kennarar við skólann sem kenndu mér á þessum tíma, t.d. Benedikt Barðason, aðstoðarskólameistari. Það var gaman að hitta hann á dögunum og rifja upp þessa tíma,“ segir Sverrir.
Eftir stúdentspróf lá leiðin til Bandaríkjanna. Sverrir rifjar upp að enskan hafi alltaf verið hans lakasta grein í VMA og honum fannst nauðsynlegt að ráða bót á því. Það yrði best gert með því að fara í enskunám í enskumælandi landi. Síðan skyldi stefnt á háskólanám. Og það gerði Sverrir. Hann fór til Denver í Bandaríkjunum, hvar hann er enn þá búsettur, og fór í alþjóðaviðskipti í University of Denver. Að námi loknu kom Sverrir aftur til Íslands og starfaði um skeið hjá verslunarsamsteypunni Högum og síðan var hann í markaðsmálunum hjá Heklu.
En árið 2007 var komið að því að Sverrir tæki stóra skrefið. Hann vildi fara að gera hlutina sjálfur, starfa sjálfstætt. „Frá blautu barnsbeini ólst ég upp í einkafyrirtækinu JMJ, var farinn að vinna hér ungur að árum. Eins og pabbi í JMJ blundaði alltaf í mér löngunin til þess að gera hlutina sjálfur og ég lét verða af því árið 2007,“ segir Sverrir en síðan hefur hann verið með fyrirlestra og ráðgjöf fyrir stjórnendur og starfsfólk fyrirtækja af öllum stærðum og gerðum út um allan heim. Síðustu mánuði hefur hann til dæmis verið í samskiptum og þjálfað mikinn fjölda starfsmanna tölvu- og hugbúnaðarrisans Microsoft og hann nefnir sem dæmi að fyrir dyrum standi að þjálfa stjórnendur hjá stærsta orkufyrirtæki Nýja-Sjálands.
Stundum segist Sverrir tala til fólks á staðnum en einnig sé hann með fyrirlestra sína í gegnum Zoom. Heimurinn er allur undir og engin landamæri. En tímamunurinn gerir það auðvitað að verkum að til þess að ná eyrum fólks í fjarlægum heimshlutum þarf hann oft að henda sér í spjarirnar í Denver um miðjar nætur.
En út á hvað ganga fyrirlestrar Sverris og þjálfun hans? Hann segist vilja ramma innhald boðskapar síns í einni setningu: að fólk verði betri útgáfan af sjálfu sér. Lykilatriði sé að fólk þori að fara sínar eigin leiðir og staðreyndin sé sú að fólk geti meira en það almennt haldi.
Eftir fimmtán ára reynslu sem fyrirlesari og ráðgjafi segist Sverrir hafa safnað heilmikilli reynslu og efni í sarpinn og úr sínum viskubrunni vilji hann miðla til fólks. Þess vegna hafi hann ákveðið að láta á það reyna að halda slíka fyrirlestra í Menningarhúsinu Hofi 7. janúar kl. 11-13 fyrir ungu kynslóðina – 10-16 ára - og sama dag kl. 14-17 fyrir fullorðna. Síðan bjóði hann fólki upp á tvo eftirfylgnitíma, þar sem þátttakendum gefst tækifæri til þess að spyrja og leita frekari upplýsinga. Þessir eftirfylgnitímar verða á Zoom 16. og 23. janúar kl. 19 fyrir unga fólkið (og foreldra) og 17. og 24. janúar kl. 19 fyrir fullorðna.
Fyrirlestra sína kallar Sverrir Töfrarnir í aukaskrefinu og í kynningu á þeim eru nokkrar lykilsetningar:
Hjálpum unga fólkinu að ná betri tökum á lífinu og verða sterkari einstaklingar / Bættu sjálfan þig á öllum sviðum í lífinu og taktu aukaskrefið
- Töfrarnir í að taka ábyrgð á eigin árangri
- Töfrarnir í markmiðasetningu og að framkvæma
- Töfrarnir í jákvæðu viðhorfi
- Töfrarnir í sjálfstraustinu
Áhugavert er að fylgjast með Sverri á fb.síðu hans. Þar hefur hann póstað stuttum myndböndum hvern vikan dag í á annað ár þar sem hann talar til fylgjenda sinna á fb. um hversdaginn. Sverrir segir að hann hafi byrjað á þessu í miðjum kóvidfaraldrinum. Hann hafi fundið hjá sér þörf til þess að tala til fólks á jákvæðan hátt í allri þeirri neikvæðni sem helltist yfir heimsbyggðina vegna faraldursins. Síðan hafi hann haldið uppteknun hætti. Myndböndin eru nú komin á sjöunda hundraði og Sverrir segist alls ekki vera hættur.
Þrátt fyrir að hafa búið lengi í Bandaríkjunum segist Sverir halda mjög góðum tengslum við heimalandið. Hann komi heim oft á ári og sé hér í hálfs mánaðar til þriggja vikna vinnutörnum þar sem hann vinni fyrir ýmis fyrirtæki. Og Sverrir hefur líka mikla þörf fyrir að rifja upp gamla takta á aðventunni á bak við búðarborðið í fjölskyldufyrirtækinu JMJ. Þess vegna er hann á Akureyri eins mikið og hann getur á aðventunni ár hvert og stendur vaktina með sínu fólki í JMJ. „Ég elska þetta, að vinna með fjölskyldunni og hitta kúnnana. Maður sér alltaf betur og betur hversu miklu máli ræturnar skipta,“ segir Sverrir Ragnarsson.