Stefnan tekin á árlegt Flensborgarhlaup
Í næstu viku, nánar tiltekið þriðjudaginn 27. september, verður efnt til framhaldsskólakeppni í hlaupi við Flensborgarskóla í Hafnarfirði. Um er að ræða hið árlega Flensborgarhlaup, sem nokkrir nemendur og starfsmenn VMA hafa tekið þátt í undanfarin ár. Boðið verður upp á tvær vegalengdir, 5 km og 10 km, en framhaldsskólakeppnin fer aðeins fram í 10 km hlaupinu. Þar verður krýndur framhaldsskólameistari karla og kvenna auk þess sem dreginn verður út fjöldi verðlauna. Hér er auglýsing fyrir hlaupið.
VMA hyggst taka þátt í Flensborgarhlaupinu, eins og undanfarin ár. Vitað er að í skólanum er fullt af frískum og hraustum stelpum og strákum og er hér með skorað á þessa hraustu hlaupara að gefa sig fram og koma með suður í Hafnarfjörð. Ath. að ekki er skilyrði að hlauparar séu afreksíþróttamenn, einungis er gerð krafa um að nemendur taki þátt og hafi gaman af. Nemendur geta bæði hlaupið 5 og 10 km þó svo að framhaldskólakeppnin sjálf sé aðeins í 10 km hlaupinu.
Frekari upplýsingar um hlaupið eru hér:
Hlaupið hefst kl. 17:30 og verður lagt af stað að morgni þess sama dags kl. 9:00 frá VMA og því gefst einhver frjáls tími við komu í borgina. Eftir hlaup verður farið í sund, síðan borðað og gert eitthvað skemmtilegt um kvöldið. Gist verður í Flensborgarskólanum og lagt af stað um kl. 9:00 miðvikudaginn 28. september, aftur heim. Gert er ráð fyrir heimkomu upp úr hádegi.
Nemendur geta skráð sig í hlaupið hlaup.is og á skrifstofu skólans og þurfa að gera það í síðasta lagi nk. föstudag, 23. september. Ekki er hægt að skrá sig á staðnum.
Nemendur þurfa ekki að greiða fyrir farið suður en þeir greiða 500 krónur í mótsgjald (þar sem sundferðin er innifalin) og greiða sömuleiðis fyrir mat.
Undirbúningsfundur verður föstudaginn 23. september kl. 13:15 í stofu B-01. Áhugasamir hafi samband við Valgerði Dögg félagsfræðikennara (vala@vma.is) eða Ólaf íþróttakennara (olafur@vma.is) sem fyrst því í boði er takmarkaður fjöldi sæta suður.