Í anda Ásmundar
Á myndlistarlínu listnáms- og hönnunarbrautar fá nemendur innsýn í ólík listform, eins og vera ber. Í einum myndlistaráfanganum eru höggmyndir eða skúlptúrar á dagskrá. Á dögunum var litið inn í kennslustund hjá Örnu Valsdóttur þar sem nemendur unnu kappsamlega að því að móta verk úr sínum hugarfylgsnum í anda Ásmundar Sveinssonar.
Hrafnhildur Sunna Eyþórsdóttir var ein af þeim sem glímdi við gerð skúlptúrs í anda Ásmundar í þessum tíma hjá Örnu. Hún er Reykvíkingur en ákvað að hleypa heimdraganum, eins og sagt er, og flytja norður til Akureyrar og hefja nám á listnáms- og hönnunarbraut VMA. Hún bjó á heimavistinni sl. vetur og í upphafi þesssarar annar en leigir núna úti í bæ. Hrafnhildur Sunna segist engan veginn hafa verið viss um hvað hún vildi læra, margt hafi heillað eins og t.d. að læra listræna förðun. Einnig hafi hún velt vöngum yfir því að læra að verða bakari og raunar sé alls ekki útilokað að hún eigi síðar eftir að fara í bakarann. En listnám hafi að lokum orðið fyrir valinu.
„Ég verð að viðurkenna að mamma saknaði mín mikið eftir að ég flutti hingað norður í fyrra en hún var jafnframt stolt að því að ég skyldi láta hjartað ráða för og prófa eitthvað nýtt. Þó svo að mér finnist þetta nám mjög skemmtilegt og gefandi er ég ekki viss um að ég leggi listsköpun fyrir mig. Eins og staðan er núna þori ég ekki að segja til um hvar ég verð eftir tíu ár. Kannski verð ég þá orðin bakari, hver veit?“ segir Hrafnhildur Sunna og brosir.
Hún segist til að byrja með hafa gert grín af Akureyringum fyrir stolt og ást þeirra á sínum heimabæ. „En það geri ég ekki lengur. Ég kann mjög vel við mig hér fyrir norðan og elska þennan bæ.“