Í anda Rodins
Í síðasta mánuði sýndum við hér á heimasíðunni myndir af verkum nemenda á listnámsbraut þar sem viðfangsefnið var að vinna með gömul og þekkt listaverk. Meðal annars sýndum við nokkur verk nemenda í áfanganum MYL 3036 hjá Hallgrími Ingólfssyni í anda franska myndhöggvarans Francois Auguste Rene Rodin. Nú hafa fleiri skúlptúrar nemenda í anda Rodins bæst við í Gallerí Glugga á austur/vestur ganginum í VMA og má sjá myndir af þeim hér.
En hver var Auguste Rodin? Sem fyrr segir var hann franskur myndhöggvari, fæddur 1840 og lést árið 1917. Hann fór meðal annars til Ítalíu á þeim árum sem hann var að þróa list sína og varð fyrir miklum áhrifum af verkum Michelangelos. Rodin sýndi verk sín á heimssýningunni í París aldamótaárið 1900 og var þá orðinn einn af þekktustu og eftirsóttustu myndlistarmönnum Frakka – var með stóra vinnustofu og hafði fjölda nemenda og aðstoðarfólks í vinnu.